Veist þú um skemmtilegt endurosvæði?

Vélhjólaíþróttaklúbburinn hefur s.l. ár haldið í það minnsta eina keppni í Íslandsmótinu í enduro. Margar af þessum keppnum hafa verið haldnar í Bolaöldu,en einnig höfum við fengið til afnota svæði á Flúðum og nokkrum öðrum stöðum í gegnum tíðina.

Það er mat okkar VÍK manna nú að Bolaöldusvæðið sé komið að þolmörkum hvað keppnishald og slit á svæðinu varðar og höfum við s.l. ár leitað eftir svæðum í kringum borgina til að halda þessar keppnir. Það hefur gengið upp og ofan og við höfum í raun ekki verið 100% sáttir við neitt af þeim svæðum sem við höfum fengið s.l. ár.

 

Við þekkjum það vel frá Ásgarði hversu skemmtilegt þetta er ef við finnum rétta landið og réttu umgjörðina. Þess vegna langar okkur að athuga hvort að það sé ekki einhver þarna úti sem gæti átt, eða bent okkur á svæði sem við gætum fengið afnot af fyrir Íslandsmótið sem verður haldið núna í sumar þ. 12. júlí. Með réttu svæði trúum við því að við getum séð Enduro keppnishaldið fara upp á við aftur og það ætti ekki að vera neitt til fyrirstöðu að sjá 100 manna keppnir ef rétta svæðið finnst. VÍK getur boðið greiðslu fyrir svæði sem uppfyllir væntingar um góða keppni.

Íslandsmótið í ár saman tendur af einungis tveimur mótum og er hugmyndin að halda þessar keppnir með veglegri hætti en áður ef rétta umhverfið finnst.

 

Seinni keppni sumarsins fer fram á Akureyri 9. ágúst á Akureyri, en norðan menn eiga frábært svæði til enduro keppnishalds.

 

Endilega skoðið í kringum ykkur og látið okkur vita ef ykkur dettur eitthvað gott svæði í hug, eða þá ef þið hreinlega hafið svæðið til umráða undir þetta. Allar ábendingar er hægt að senda á vik@motocross.is eða í gegnum Skilaboð á Facebooksíðu félagsins.

Skildu eftir svar