GFH enduro 1.0 á Hellu, þvílík skemmtun!

GFH endurokeppnin á Hellu stóð fyllilega undir væntingum en þetta var í fyrsta sinn síðan 2007 sem keppt var í þessu einstaka keppnissvæði.

Sigurvegarar dagsins í Meistaraflokki
Sigurvegarar dagsins í Meistaraflokki

Sandur, vatn, meiri sandur og sandsteinsklettar og svo aðeins meiri sandur var jarðvegur dagsins – þvílík snilld. Veðrið kom skemmtilega á óvart, en eftir að úrhellisrigning hafði barið á bílum keppenda langleiðina frá Reykjavík (þeir sem þaðan komu amk) var nær þurrt á Hellu fyrir utan eina og eina skúr sem voru pantaðar til að rykbinda brautina. Brautin var lögð á tiltölulega afmörkuðu svæði í stóra gilinu og niður að ánni og aftur að pittinum.

Guggi og félagar lögðu uþb. 6-7 km langan frábæran endurohring sem bauð upp á allar útgáfur af brölti og tæknilegri skemmtun, hraða kafla og brekkuæfingar sem hristu hressilega upp í röð keppenda yfir daginn. Þar sem búast mátti við vandræðum var búið að leggja góðar hjáleiðir og var gaman að sjá að nær allir keppendur nýttu sér hjáleiðirnar á einhverjum tímapunkti sem segir sitt um erfiðleikastig þrautanna.

Fyrri umferðin keyrðist nokkuð vel og lítið um vandræði og í Meistaraflokki var Eyþór Reynisson hraðastur, Valdimar Þórðarson nokkur keyrði sig upp í 2. sætið og Guðbjartur Magnússon stimplaði sig inn í þriðja sætið. Seinni umferðin reyndist talsvert erfiðari eftir að brautinni var snúið við. Sérstaklega var þar ein brekka með vænu frákasti í miðru brekki og sandsteinsklett í efstu brún sem felldi bestu menn hvað eftir annað. Þegar leið á umferðina sáust jafnvel toppmennirnir lauma sér í hjáleiðina sem var mun lengri og hlykkjótt en öruggari. Þegar upp var staðið var það Valdimar Þórðarson sem sigraði daginn í Meistaraflokki eftir hörkuflottan akstur og greinilegt að hann hefur engu gleymt. Eyþór varð annar og Guðbjartur skilaði sér í þriðja sæti eftir daginn.

Að öðrum ólöstuðum verður að minnast sérstaklega á flokk heldri manna, 50+ flokkinn en þar mættu þrír keppendur til leiks og sýndu snilldartilþrif. Þar varð Elvar (Elli píp) í fyrsta sæti, Jósef í öðru og Jón H. Magnússon þriðji.

50+ á palli
50+ á palli
Sigurvegarar í kvennaflokki: Brynja Hlíf, Guðfinna og Tedda
Sigurvegarar í kvennaflokki: Brynja Hlíf, Guðfinna og Tedda
40-49 flokkur, Gulli "hjáleið" Sonax, Gunni Sölva og Toggi Óla skælbrosandi
40-49 flokkur, Gulli „hjáleið“ Sonax, Gunni Sölva og Toggi Óla
Tvímenningur, klárlega mesta stuðið í þessum flokk og hart barist. Halli og Ármann efstir, Jói og Binni #2 og Bjarki og Einar höltruðu í þriðja sæti á hálfu hjóli ca.
Tvímenningur, klárlega mesta stuðið í þessum flokk og hart barist. Halli og Ármann efstir, Jói og Binni #2 og Bjarki og Einar höltruðu í þriðja sæti á hálfu hjóli ca.
14-18 ára flokkurinn var sérlega hraður og náðist ekki á mynd en þarna hefði átt að sjást í Viggo efstan, Odd nr. 2 og Sebastian. Ef einhver á betri mynd mætti senda hana til okkar
14-18 ára flokkurinn var sérlega hraður og náðist illa á mynd. Viggó Smára varð fyrstur, Oddur annar og Sebastian þriðji. Ef einhver á betri mynd mætti senda hana til okkar

Úrslit úr öðrum flokkum má sjá hér fyrir neðan og í Excel skjölum má líka sjá úrslit flokksins og hringjatíma hvers keppanda.

Þetta var fyrsta keppnin með nýju sniði, svokallað GFH enduro sem þarf ekki að útskýra, þar sem áherslan verður á styttri brautir með 2-3 erfiðum þrautum en hjáleiðum. Keppt er í styttri tíma og meira lagt upp úr að brautirnar séu áhorfendavænar og skemmtilegar fyrir alla sem nálægt koma. Er óhætt að segja að þessi fyrsta keppni hafi uppfyllt allt þetta og meira til og má ábyggilega enn sjá gleðiglottið á keppendum eftir daginn. Keppnissvæðið við Hellu er einstakt og vonandi tekst okkur að gera þessa keppni að föstum lið á keppnisdagatalinu um ókomin ár. Til þess þurfum við að virða akstursbann á svæðinu en ÖLL UMFERÐ TORFÆRUHJÓLA ER BÖNNUÐ á svæðinu fyrir utan þennan eina dag. Tökum því höndum saman og tryggjum að svæðið verði látið alfarið í friði af hjólafólki.

VÍK þakkar öllum sem mættu á keppnina fyrir frábæran dag. Keppendum er þakkað fyrir heiðarlega og góða keppni og ekki síst fyrir hjálpina við að taka brautina niður á mettíma fyrir verðlaunaafhendingu. Þeir sem lögðu hönd á plóg við brautarlagningu og alla aðra aðstoð fá sérstök rokkstig, án ykkar hefði þetta ekki gengið svona vel. Síðast en ekki síst fær þó Pétur Smárason extra stjörnur í kladdann fyrir að koma með og grilla í hléinu ásamt Kalla pulsur og hamborgara í alla keppendur og áhangendur – ferfalt húrra fyrir því 🙂

19-39 flokkur, Geir, Pétur og Vignir flottir.
19-39 flokkur, Geir, Pétur og Vignir flottir.

Næsta keppni fer svo fram á Akureyri 9. ágúst og mun KKA án efa sýna okkur hvernig á að leggja skemmtilega braut á þeirra frábæra svæði. Heyrst hefur að þar muni Pétur jafnvel endurtaka hamborgaraleikinn og einnig að mögulega verði boðið upp á Kaldan á krana í lok dags með tilheyrandi.

Önnur úrslit má sjá hér.

 

gfh1gfh2

 

 

Result 14-18

Result 19-39

Result 40-49

Result 50+

Result Kvenna

Result Tvimenn

Result Meistara

Summary

Skildu eftir svar