Síðasta keppnin í Íslandsmótinu í motokrossi var haldin í Bolaöldu í gær

Eyþór Reynisson er Íslandsmeistari í MX Open og MX2 flokki árið 2014!
Eyþór Reynisson er Íslandsmeistari í MX Open og MX2 flokki árið 2014!

Úrslitin í Íslandsmótinu í motokrossi réðust í fimmtu og síðustu umferðinni sem fór fram í brautinni í Bolaöldu í gær. Veðrið var eins og best var á kosið, smá gola, hlýtt og þurrt. Á föstudeginum og aðfararnótt laugardags rigndi hressilega þannig að rakastigið í brautinni var eins og það gat best verið. Fjöldi keppenda var tæplega 70 manns sem er með mesta móti þetta sumarið og gaman að þetta margir skyldu skrá sig í þessa síðustu keppni sumarsins.

Eyþór Reynisson gerði engin mistök í MX Open/MX2 flokki og sigraði tvöfalt eftir gríðarlega öruggan akstur og landaði þar með verðskulduðum Íslandsmeistaratitli í báðum flokkum. Guðbjartur Magnússon varð annar í gær og Sölvi Borgar Sveinsson endaði í þriðja sæti í MX Open. Í kvennaflokki kom það engum á óvart að Anita Hauksdóttir ynni bæði moto og yrði þar með Íslandsmeistari í kvennaflokki með yfirburðum.

Anita Hauksdóttir er Íslandsmeistari kvenna í motokrossi árið 2014
Anita Hauksdóttir er Íslandsmeistari kvenna í motokrossi árið 2014

 

Andri Snær Guðmundsson sigraði bæði motoin í Bolaöldu, Hlynur varð önnur en Óliver Örn landaði Íslandsmeistaratitlinum með stæl
Andri Snær Guðmundsson sigraði bæði motoin í Bolaöldu

Í unglingaflokki var hörkureis en íslenski „norðmaðurinn“ Andri Snær Guðmundsson kom sá og sigraði unglingaflokkinn með stæl eftir harða baráttu í við Hlyn Örn í báðum motoum. Óliver Örn Sverrisson varð í þriðja sæti í gær og varð um leið Íslandsmeistari í unglingaflokki eftir öruggan akstur í allt sumar. Andri Snær gerði sér reyndar lítið fyrir og keppti líka í MX2 og varð þriðji þar á eftir Guðbjarti Magnússyni. Andri býr í Noregi og æfir/keppir með landsliðshóp Norðmanna og var virkilega gaman að fá hann til landsins og sjá hann gera góða hluti í keppninni í Bolaöldu.

Heiðar Örn Sverrisson, Íslandsmeistari 40+
Heiðar Örn Sverrisson, Íslandsmeistari 40+

Í 40+ flokki var hörð barátta eins og oft áður í sumar á milli Heiðars Arnar Sverrissonar og Hauks Þorsteinssonar. Heiðar sigraði þó bæði mótoin nokkuð örugglega og landaði þannig Íslandsmeistaratitlinum 2014 en þar hefur verið mikil stemning og margir keppendur mætt til leiks í sumar. Í þriðja sæti í gær varð Pálmar Pétursson eftir flottan akstur. Í 85 flokki sigraði Elmar Darri Vilhelmsson eftir hörkukeyrslu og mikla baráttu við Víði Tristan Víðisson sem á klárlega framtíðina fyrir sér í sportinu. Þriðji varð svo Axel Orri Arnarson.

Elmar Darri sáttur með sigurinn og Íslandsmeistaratitil í 85 flokki
Elmar Darri sáttur með sigurinn og Íslandsmeistaratitil í 85 flokki

B flokkinn sigraði Selfyssingurinn knái Axel Sigurðsson, Pétur „Snæland“ Smárason varð annar og er þar með stigahæstur í B flokki eftir sumarið en Björn Torfi Axelsson fyllti þriðja sætið í gær.

Þetta var síðasta keppnin í ár en aldrei er að vita nema VÍK eða eitthvert hinna félaganna taki sig til og haldi létta bikarkeppni enda nóg eftir af sumrinu. Næsti viðburður MSÍ er svo árshátíðin sem fram fer 8. nóvember að vanda. Þangað til geta menn velt fyrir sér keppnisfyrirkomulaginu og spáð í spilin fyrir næsta sumar. VÍK þakkar öllum sem mættu í gær, keppendum og áhorfendum og sérstaklega þeim sem lögðu hönd á plóginn við undirbúning og framkvæmd keppninnar (sérstaklega þeim sem komu og flögguðu allan daginn, það munaði ekkert smá um þá hjálp 🙂 Takk kærlega fyrir okkur!

Keppnin er komin á MyLaps.com hér

Staðan í Íslandsmótinu sést svo hér:

MX_Open

MX2

MX_Unglingaflokkur

 

Kvennaflokkur

85_flokkur

40+_flokkur

B_flokkur

 

 

 

Skildu eftir svar