Eins og flestir vita þá slasaðist Brynja Hlíf Hjaltadóttir mjög illa í síðustu viku á motocrossæfingu í Noregi þar sem hún er við nám. Þrír hryggjarliðir brotnuðu auk annarra meiðsla og sem stendur hefur hún litla sem enga tilfinningu neðan við brjóst. Hún og fjölskylda hennar er þó vongóð og ákveðin í því að yfirstíga þessi erfiðu meiðsli. Við vitum að þetta getur orðið langt og strangt ferli og spurning hversu lengi hún þarf að dvelja í Noregi.
Við viljum leggja okkar að mörkum og fá sem flesta til að leggja hönd á plóginn. Því hefur VÍK fengið samþykki hjá Kópavogsbæ fyrir að halda létta endurokeppni innan bæjarmarka Kópavogs, nánar tiltekið á gamla hesthúsasvæðinu ofan við KFC og á móti Smáralindinni. Öll keppnisgjöld munu renna til styrktar Brynju Hlífar og baráttu hennar fyrir fullum bata. Keppnin verður með léttu sniði, lagður verður stuttur hringur um hesthúsasvæðið og að menn keppi tveir saman, einn vanur og annar óvanur eins og við höfum oft gert áður með góðum árangri. Hringurinn er ca 2-3 km og tiltölulega léttur og skemmtilegur og öllum fær. Aðstaða fyrir áhorfendur gæti ekki verið betri, stutt að fara amk 🙂
Keppni fer fram laugardaginn 25. október og hefst kl. 12 og stendur til uþb 15. Keppnisgjald er 3000 kr. og greiðist á staðnum en frjáls framlög verða ennfremur í boði. Skráning fer fram með tölvupósti á guggi@flug.is
Tökum nú höndum saman og sýnum að við stöndum þétt saman þegar einni úr hópnum hlekkist á – allir að vera með!
Það þarf vonandi ekki að taka það fram að allur akstur er stranglega bannaður á þessu svæði bæði fyrir og eftir þessa keppni.