Ég veit ekki á hvaða hvatningarmyndbönd Pétur, Daði og Jónatan hafa verið að horfa eða hvaða pistla þeir hafa verið að lesa, en mig langar að komast yfir það. Í þessum töluðu orðum eru þeir ennþá í Bolaöldu að græja helgina. Það er ekki nóg að hafa brautina fyrir keppnina skothelda, heldur vilja þeir tryggja að allir geti notið sín á torfæruhjóli um helgina og því eru þeir að skerpa á barnabrautunum líka. Þær eru að sjálfsögðu opnar alla helgina og hvetjum við alla foreldra með moto-krakka að koma og leyfa þeim að hjóla og horfa á Íslandsmótið á milli umferða. Það á bæði við um motocross-ið á laugardeginum og enduro-ið á sunnudeginum. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft og ég get sko lofað ykkur því að á tímum samfélagsmiðla eru verri hlutir fyrir augum barnanna ykkar en glæsileg íþrótt sem getur orðið að skemmtilegasta áhugamáli sem þau munu kynnast. Eins og það var orðað: „Kenndu barninu þínu að elska mótorhjól og það mun aldrei hafa efni á fíkniefnum“.
Ég hvet einnig foreldra sem hafa áhuga á að koma sportinu af stað en vita ekki alveg út á hvað það gengur að koma og kynna sér málið. Það er líka bara við um alla. Komum öll og skoðum þessa veislu. Þetta er nánast steinsnar frá borginni, alla veganna ef þið heitið Ásdís Hjálmsdóttir, og þið hafið enga afsökun til þess að fá ykkur ekki bíltúr þangað upp eftir. Þið beygið til hægri inn í námurnar eftir Sandskeiðið og svo til vinstri inn á malarveginn. Restin útskýrir sig sjálf. Enginn aðgangseyrir er fyrir áhorfendur og á staðnum verður sjoppa fyrir svanga og þyrsta.
Ég enda þetta á moto-skjálfta-valdandi myndum úr barnabrautinni. Þessar voru teknar rétt áðan.
ps. lesið einnig færsluna á undan þessari.
Við sjáumst á morgun.