Motocross-brautir – aðstaða – miðar – gjöld

Við skulum byrja þetta á einfaldri hagfræði. Ekkert í þessum heimi er ókeypis. Ef einhver fær eitthvað ókeypis þýðir það bara að einhver annar er að borga fyrir það. Svo er misjafnt hvernig annar aðili borgar fyrir það. Með peningum, vinnu eða með því að láta af hendi önnur verðmæti. Milton Friedman getur frætt ykkur meira um þetta HÉR og HÉR ef þið viljið skoða þetta af meiri dýpt.

Motocross brautir á Íslandi verða ekki til af sjálfum sér. Ekki frekar en aðstaðan í kringum þær. Þær brautir sem við höfum aðgang að eru að stórum hluta þar af því að einstaklingar tóku sig til og gáfu tíma og vinnu í að hanna og skapa þessar brautir. Þar borguðu einstaklingar fyrir brautirnar með því að gefa upp tíma með fjölskyldunni eða frá öðrum hlutum og í staðinn uppskáru þessir einstaklingar aðstöðu til þess að sinna áhugamáli sínu. En vinnan er ekki nóg. Það þarf stórvirkar vinnuvélar og alls konar efni og íhluti og þessir hlutir fást ekki öðruvísi en með peningum. Sagan er heldur ekki fullkláruð þegar brautin hefur verið sköpuð. Vinnan er rétt svo byrjuð og það þarf tíma einstaklinga og verðmæti til þess að halda brautunum í góðu standi. Þessi peningur verður að koma til frá þeim sem nýta sér aðstöðuna til þess að sinna áhugamáli sínu. Þess vegna eru seld árskort í brautirnar eða stakir dagspassar. Þessar brautir eru ekki reknar í hagnaðarskyni. Það er ekki einstaklingur eða einstaklingar sem hagnast persónulega á því með fjármunum að aðgangur sé seldur í þessar brautir. Allur peningurinn fer í að halda aðstöðunni við og eða gera hana enn betri. Til þess að brautirnar geti verið sem bestar þurfa allir að leggjast á eitt og taka þátt í því að byggja svæðin upp. Þau ykkar sem getið ekki fundið tíma í að aðstoða verðið að leggja málefninu lið með því að kaupa dagspassa eða árskort. Ef þið getið gert bæði er það augljóslega besti kosturinn í stöðunni.

Í gær var Pétur, sem hefur varið ólýsanlegum tíma uppi í Bolaöldu ásamt fleirum, að vinna á svæðinu og var að grípa nokkra sem höfðu ekki keypt miða. Það gekk það langt að einhverjir aðilar voru með svo gamla miða að það stóð ESSO á þeim. Þegar þetta var borið upp á viðkomandi einstaklinga kom viðmót og viðhorf sem gerði ekkert annað en að lýsa slöppum og döprum sálum.

Torfæruhjólasamfélagið er ekki mjög stórt á Íslandi. Það ætti að vera mjög auðvelt að fá samvinnu og sameiginlegan skilning á því hvernig hlutirnir virka. Það gerist ekki með þessu viðhorfi. Þetta á alls ekki bara við starf okkar í VÍK og í Bolaöldu. Þetta á við um allt starf í kringum torfæruhjólasportið á Íslandi. Við uppskerum nákvæmlega eins og við sáum. Ef stór hluti iðkennda fer að sýna þessu starfi og aðstöðunni sem við höfum vanvirðingu verður það til þess að það verður engin aðstaða eftir.

Gerið okkur og ykkur sjálfum greiða og nálgumst aðstöðu og starfið af virðingu. Gjaldið í brautir á Íslandi er ekki hátt. Reyndar er það ótrúlega lágt. Þess má geta að á árinu 2016 fóru 5 milljónir króna í Bolaöldusvæðið. Að borga 2.000 kr. fyrir dagpassa á svæðið og 15.000 kr. fyrir árskort á svona svæði er brandari. Þess má geta að slóðarnir á svæði VÍK eru gjaldskyldir. Það þarf dagspassa eða 5.000 kr. félagsgjald til þess að fá árskort í þá. Í þá hefur verið og verður lögð vinna sem kemur til með að kosta peninga.

Ekki vera slöpp og döpur sál. Til þess að draga þetta saman fékk ég Jackie Chan:

 

Sigurjón Snær Jónsson

Formaður Vélhjólaíþróttaklúbbsins

Skildu eftir svar