Góðan dag! Það stefnir í gott veður á morgun þegar skemmtikeppnin verður, en frekar kalt. Búið er að merkja alla brautina og setja gula borða á allar hægri stikur í brautinni, en ekinn verður öfugur sólargangur. Brautin er um 5 km og bæði hröð og hæg. Búast má við að í brautinni myndist allnokkur drulla á a.m.k. 5 stöðum á um 10-50 metra köflum, en ef þetta verður eitthvað vandamál verður brautin víkkuð á þessum stöðum. Fyrir fólk sem vill koma og horfa á keppnina þá mæli ég með að fólk leggi bílunum við Egilshöll og labbi yfir brúna á Golfvellinum sem er fyrir neðan malarfótboltavöllinn (ekki labba á golfvellinum það gætu verið golfarar að
spila og labbið því meðfram vellinum svo að þið fáið ekki kúlu í hausinn). Það er stranglega bannað að keyra neitt ökutæki eftir hestareiðgötunni sem liggur meðfram keppnisbrautinni, en sú gata er ætluð fyrir sjúkrabíl og starfsmenn keppninnar.
Allur akstur mótorhjóla við og meðfram braut er stranglega bannaður og verður þá keppnin flautuð af og stoppuð af lögreglunni, en hún hefur boðað komu sína á staðinn. Ekki er mikið pláss fyrir bíla þar sem startið verður og er það litla pláss sem þar er ætlað fyrir keppendur. Ekki má leggja þannig að ekki komist sjúkrabíll niður á svæðið og vil ég því biðja alla að hjálpast við að passa upp á það. Í kvöld mun svo koma lokafréttatilkynning og listi yfir verðlaun sem fyrirtæki hafa gefið í þessa keppni.
Keppendur eru nú orðnir 44 og þar af tveir á fjórhjólum sem keppa saman (þetta er gert til að alltaf verði eitt fjórhjól í brautinni í einu) einnig eru skráðar þrjár dömur og munu þær Klara og Freyja keppa saman. Hér er keppandalistinn eins og hann var kl. 07.00 í morgun. Kveðja Hjörtur L Jónsson