Það er ljóst að það hafa allir svör á reiðum höndum hvernig við hjólamenn eigum að bæta ráð okkar. Mig langar því að koma nokkrum punktum inn í þessa umræðu. Vélhjólaíþróttaklúbburinn fordæmir harðlega allan utanvegaakstur og hefur gert lengi.
Við höfum undanfarin 2-3 ár bent ráðamönnum á þann vanda sem óhjákvæmilega fylgdi gríðarlegri aukningu á innflutningi torfæruhjóla. Við teljum okkur hafa bent á fjölda raunhæfra lausna og það vantar ekki að við fáum jákvæð viðbrögð en þegar á reynir höfum við lítinn sem enga raunverulega aðstoð fengið til að koma í
veg fyrir eða draga úr utanvegaakstri. Það er hins vegar okkar trú að með réttu skipulagi, bættri aðstöðu og skipulögðum áróðri megi leysa þennan vanda á farsælan hátt.
Félagsmenn í Vélhjólaíþróttaklúbbnum eru um 700 í dag en til marks um gríðarlega fjölgun í sportinu voru þeir um 100 árið 2004. Við áætlum að félagar í vélhjólaíþróttafélögum um allt land séu hátt í 1000 en sá fjöldi sé innan við 35% þeirra sem íþróttina stunda í raun og veru.
Áætlaður fjöldi hjóla er ríflega 3000 torfæruhjól á hvítum og rauðum númerum. Undanfarin 5 ár (ekki 2 ár) er áætlað að ríkið hafi haft hátt í 2ja milljarða tekjur af vélhjólaíþróttinni í gegnum aðflutningsgjöld, virðisaukaskatt, vegagjöld og aðra skattheimtu. Upphæðin réttlætir klárlega á engan hátt utanvegaakstur – það ætti þó amk. að gefa okkur rétt til áheyrnar þegar við óskum eftir aðstoð!
Aksturssvæði torfæruhjólamanna eru tvö á Reykjavíkursvæðinu á Álfsnesi og Bolöldusvæðið við Kaffistofuna. Álfsnes opnaði um síðustu helgi en hefur hingað til verið ófært vegna bleytu. Bolöldusvæðið opnaði formlega fyrir þremur vikum og er á frumstigi ennþá. Við höfum þó að undanförnu notið velvilja fyrirtækja og stofnana s.s. Orkuveitunnar, Landsvirkjunar, Pokasjóðs ofl við uppbyggingu á Bolöldusvæðinu. Þar höfum við á skömmum tíma byggt upp stóra akstursbraut og lagt fjölda slóða. Félagið hefur ráðið til sín starfsmann í fullt starf til að vinna að uppbyggingunni og afla henni tekna. Auk þess hafa stjórnar- og félagsmenn hafa unnið kröftuglega að því gera svæðið aðlaðandi fyrir þann stóra hóp hjólamanna sem býr á Suðvesturhorninu og draga þannig úr utanvegaakstri á svæðinu. Auk ofantalinna svæða eru lítil svæði við Þorlákshöfn, Grindavík og Selfoss. Það gefur augaleið amk. þeim sem vilja skilja málið að tvö svæði geta engan veginn annað öllum þeim fjölda hjólamanna sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu.
Umhverfisnefnd VÍK var stofnuð 2004 og hefur m.a. haldið opna umræðufundi, sett upp skilti í samstarfi við 4×4, gefið út umhverfisbækling og rekið stífan áróður gegn utanvegaakstri o.m.fl.
Allt þetta gerum við af eigin frumkvæði, í eigin frítíma og á eigin kostnað. Í fjölmörg ár höfum við bent stofnunum eins og Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneyti, Landgræðslunni og sveitarfélög á vandann sem mun fylgja auknum innflutningi hjóla ef ekki verði unnið sérstaklega í svæðamálum og þjónustu við þennan hóp. Í tíð Sivjar Friðleifsdóttur í Umhverfisráðuneytinu fékk félagið 2 milljóna kr. styrk vegna Álfsnesbrautarinnar ofl. en að því slepptu hafa undirtektir ráðamanna verið litlar sem engar og vanalega bendir hver á annan.
Sem stendur eru viðræður í gangi við Umhverfisstofnun, Umhverfisráðuneyti og fjölmarga aðra aðila um ýmsar áhugaverðar lausnir en það ferli einkennist þó mest af því að hver stofnunin vísar á aðra frekar en að taka af skarið til að gera eitthvað í málunum!
Á sama tíma standa hins vegar menn í biðröð við að benda okkur á hvað við þurfum að gera og hvernig við eigum að koma í veg fyrir utanvegaakstur og skilja ekki hvers vegna við erum ekki búnir að leysa málin! Okkur vantar ekki viljann en við gerum þetta ekki á eigin spýtur!
Það sem til þarf er í fyrsta lagi bætt skipulag og aðstaða auk framkvæmda strax – bæði hvað snertir svæði og fé til uppbyggingar þeirra og einnig afmörkun ákveðinna slóða fyrir torfæruhjól fyrir þá sem aka á hvítum númerum og velja slóða frekar en lokuð aksturssvæði. Hins vegar þarf skipulagðan áróður gagnvart hjólamönnum sem og öðrum sem keyra utanvega. Þetta ætti að skila þeirri hugarfarsbreytingu sem þörf er á. Aðeins þannig verður raunverulega komið veg fyrir utanvegaakstur en ekki með boðum, bönnum eða þyrlueftirliti.
Í lokin má geta þess að í gær hittust umhverfisnefndir 4×4 og VÍK ásamt fulltrúum Landgræðslu og Umhverfisstofnunar og lögðu drög sameiginlegu átaki til að draga úr utanvegaakstri með þátttöku fjölda aðila sem eiga hagsmuna að gæta.
Kveðja, Hrafnkell Sigtryggsson formaður VÍK