Frá Umhverfisnefnd

Eins og félagsmenn hafa eflaust tekið eftir hefur að undanförnu verið nokkur umræða
í fjölmiðlum um akstur utan vega og oftar en ekki hafa hjólamenn legið undir
ásökunum ? því miður ekki alltaf að ástæðulausu.

Í dag, þriðjudaginn 7. september, var kallaður saman fundur á vegum
Umhverfisstofnunar. Tilgangur fundarins var tvíþættur, annarsvegar til að kynna
nýstofnaðan vinnuhóp sem hefur það hlutverk að koma með tillögur um hvaða vegi má
aka í óbyggðum og hverja ekki. Og hinsvegar að leita eftir skoðunum helstu
útivistarfélaga og hagsmunaaðila hvað megi gera til að sporna við utanvegaakstri.

Fulltrúum allra helstu stofnana og hagsmunahópa var boðin þátttaka og var mæting
langt umfram væntingar fundarboðenda ? trúlega um 50 manns. VÍK var boðið að senda
fulltrúa á staðinn og mætti formaður klúbbsins og allir umhverfisnefndarmennirnir
fjórir.

Umhverfisráðherra, Sif Friðleifsdóttir, opnaði fundinn og talaði um mikilvægi þess
að sporna við utanvegarakstri. Hún minntis m.a. á VÍK og þær jákvæðu aðgerðir sem
klúbburinn hefur framkvæmt í umhverfismálum. Að því loknu var vinnuhópurinn kynntur
og það starf sem hann er að vinna að. Þar kom m.a. fram að Vegagerðin og
Landmælingar hafa kortlagt meginhluta slóða á landinu og nú stendur til að koma með
tillögur um hverjum skal loka.

Fulltrúar VÍK mættu mjög vel undirbúnir á fundinn og kvað Hrafnkell formaður VÍK sér
fyrstur hljóðs er umræður hófust og flutti mjög ítarlegt og vandað erindi til
kynningar á VÍK, afstöðu klúbbsins til umhverfismála og þeim aðgerðum sem staðið
hefur verið að til þess að efla umhverfisvitund félagsmanna. Erindið var málefnalegt
og fræðandi um viðhorf og stöðu okkar hjólamanna og framsetningin skýr. Segja má að
það hafi gefið tóninn fyrir þau erindi sem á eftir komu sem voru nánast
undantekningarlaust málefnaleg og laus við fordóma í okkar garð. Oftlega var vikið
að hjólamönnum í ræðum manna og segja má að það hafi komið okkur VÍK mönnum á óvart
hve ríkur skilningur virtist vera á þörfum okkar og aðstöðu.

Gegnumgangandi í erindum þeirra útivistarmanna sem til máls tóku var ótrú á lokunum
slóða með boðum og bönnum. Frekar ætti að efla merkingar, uppbyggingu og stikun
slóða og leggjast í kröftugt kynningarstarf og fræðslu til að efla umhverfisvitund.

F.h. Umhverfisnefndar VÍK
Leópold Sveinsson.

Skildu eftir svar