Fyrir hönd VÍK svarar Hákon Ásgeirsson erindi Arons Reynissonar (sjá þ. 24.10.01) varðandi tryggingar í keppnum.
Nokkurs misskilning gætir hjá Aroni. Allar keppnir sem VÍK hefur haldið eru löglegar. Hver einasta keppni er ábyrgðartryggð og ökutækin í þeim. Allar keppnir eru haldnar í samráði við Sýslumann viðkomandi umdæmis sem gefur út keppnisleyfi þegar hann hefur fengið í hendur tryggingarskírteini, leyfi landeiganda og ýmis önnur gögn. Með því tryggingarskírteini sem VÍK kaupir fyrir hverja og eina keppni ábyrgðartryggir VÍK þann skaða sem keppnistækin valda þriðja aðila, þ.e. skaða sem verður af völdum þeirra á áhorfendum eða aðstandendum. Þessi trygging er uppá 45.000.000 ísl. krónur. (lesist 45 milljónir). Ath. Að keppnistækin sjálf eru ekki tryggð fyrir eigin skemmdum (það þýðir ekki að hringja í Sjóvá ef afturskermurinn brotnar). Sýslumaður samþykkir skoðunarmann á hverri keppni sem sér til þess að hjólinstandist öryggiskröfur.
Auk þessa eru starfsmenn keppnana sérstaklega slysatryggðir fyrir fjóra og hálfa milljón. Öðruvísi er farið að þessu í öðrum akstursíþróttum eðlisins vegna, t.d. kaupa vélsleðamenn sérstakan keppnisviðauka við sína tryggingu til að vera tryggðir í keppni og því þarf klúbburinn ekki að kaupa nema slysatryggingu áhorfenda. Keppendur sem skráðir eru í VÍK eru slysatryggðir af Tryggingastofnun Ríkisins, þegar þeir eru við keppni eða „æfingar undir leiðsögn þjálfara“.
Persónulega finnst mér þessar tryggingar ekki mjög fullnægjandi og mæli ég með því að menn kaupi slysatryggingu með viðauka sem leyfir akstursíþróttir sem reyndar kostar nokkrar aukakrónur. Nokkrum sinnum á undanförnum arum hefur reynt á þessar trygginar og að sjálfsögðu hafa þær sannað gildi sitt. T.d. hafa áhorfendur á torfærukeppnum slasast og fengið greitt, einnig man ég eftir rúðu sem brotnaði í bíl á stæði við MX keppni á Sandskeiði og greiddi tryggingin hana.
Kostnaður VÍK við þessar tryggingar var yfir 300.000 krónur árið 2001.
Kær kveðja,
Hákon Ásgeirsson
Ritari stjórnar VÍK