Á VÍK árshátíðinni átti að sprengja loftið á Reiðhöllinni í Víðidal og koma öllum árshátíðar-gestum það vel á óvart að þeir mundu aldrei muna annað eins. Síðasta alvöru STUNT atriði var fyrir ónefndum árum og algjörlega ó-planað en það voru tilþrif ónefnds hjólamanns, ekki ódrukkinn, í jakkafötum á 11 þúsund snúningum upp Suðurlandsbraut. Sú ferð endaði framan á leigubíl og hvorki hjól né jakkaföt voru nothæf á eftir. Vefstjóri saknar ónefnds og biður hann um að vakna af dvala sínum og byrja að hjóla aftur.
En aftur að VÍK STUNT atriðinu sem verður á heimsmælikvarða svo vægt sé til orða tekið. Ekki stóð til að kynna þetta atriði fyrirfram og átti að koma öllum „hrikalega“ á óvart. Eftir ýmsar vangaveltur komst sú niðurstaða á pappír að ekki væri það réttlætanlegt að láta álíka STUNT fréttast eftirá… fyrir þá sem ekki mæta.
Fredrik Hedman, einn besti hálofta mótorhjólamaður Evrópu og fyrrverandi atvinnumaður í motocross mun sýna listir sýnar í Reiðhöllinni í Víðidal á árshátíð VÍK. Þetta er einstakt tækifæri til þess að sjá Freestyle motocross á heimsmælikvarða. Þannig að það er eins gott að tryggja sér miða á árshátíðina núna, því engin alvöru mótorhjólamaður klikkar á þessu. Myndir af Fredrik hafa verið birtar.