Ekki voru til sæti fyrir alla sem mættu á félagsfund AÍH. Mættir voru um 40 manns. Sýnt var 14 mínútna íscross vídeó-hristingur sem Ingvar Örn Karlsson hafði klippt saman. Heimir Barðasson hélt síðan fyrirlestur um ísdekk, búnað og ísakstur. Þorgeir Ólason, Jón H Magnússon, Reynir Jónsson og fleiri tóku virkan þátt í þessum fyrirlestri og lögðu til ýmsar upplýsingar. Eftir stutt kaffihlé renndi Aron Reynisson yfir íscross keppnisreglurnar og væntanlegt fyrirkomulag á íslandsmótinu í íscrossi. Vélhjóladeild AÍH (áður VÍH) mun beita sér fyrir því að halda íslandsmótið í ár. Sköpuðust lifandi umræður um reglurnar og fyrirkomulagið. Til stóð að Verslunin Moto mundi vera með kynningu á einhverjum vörum en annaðhvort gleymdi Karl Gunnlaugsson þessu eða hann mætti of seint og komst ekki inn í húsið. Jón H. Magnússon frá JHM Sport setti því lokapunktinn á félagsfundinn með stuttum fyrirlestri.