Lokuð frumsýningarveisla var haldin í húsakynnum Bílabúðar Benna s.l. laugardagskvöld. Var þar margt um manninn og reyndar miklu fleiri en nokkur átti von á. Jólagjöfin frá Bílabúð Benna var Ljóshraða-serían 2002 á VCD-diski. Bjarni Bærings stýrði hófinu og Jói „Bærings“ sá um grafísku hliðar gleðinnar. Benedikt Eyjólfsson kynnti til sögunnar Cannondale umboðið ásamt öðrum tengdum torfæruhjólavörum sem Bílabúð Benna mun verða með. Frú Umhverfisráðherra og bifhjólakona, Siv Friðleifsdóttir, steig á stokk og lýsti yfir fullum stuðningi við okkur torfæruökumenn í baráttunni fyrir úthlutuðu æfingasvæði. Hún hafði unnið heimavinnunna vel, talað við rétta aðila í kerfinu og kom Heimi og Hákoni í samband við öfluga áhrifamenn. Bindum við miklar vonir við þennan öfluga stuðningsmann okkar. Siv endaði mál sitt með því að svipta hulunni af nýja X440 krossaranum. Veitingar voru fram bornar af forkunnarfögrum ofurfyrirsætum og mjöðurinn rann niður digurlega barka ökumanna meðan hjólin voru tekin út og gæðaprófuð af sjálfskipuðum sérfræðingum kvöldsins. Eftir fjörugt kvöld og dillandi gleði tók alvara lífsins við hjá ansi mörgum – bjarga leigubíl niður í miðbæ og skella sér aftast í biðraðir öldurhúsa borgarinnar, í beljandi rigningunni…!!! Bjarni Bærings.