Vegna þýðingu á grein úr RacerX hér á vefnum langar mig (Bjarni Bærings) að upplýsa eftirfarandi. Hjólaframleiðandinn Cannondale hefur nokkrar verksmiðjur í Bandaríkjunum. S.l. 3 ár hafa þeir lokað 2 þeirra í desember og janúar í hagræðingarskyni þar sem eftirspurn eftir torfæruhjólum og reiðhjólum er í lágmarki yfir vetrarmánuðina. Í 1 verksmiðju til viðbótar er gjarnan unnið á hálfum vöktum þetta tímabil. Að loka verksmiðju tímabundið er því ekki það sama og að hætta framleiðslu.
Það er rétt sem kemur fram í RacerX að Cannondale hefur ekki skilað miklum arði til hluthafa sinna og býr ekki yfir miklu eigin fé. Ástæðan er sú að síðustu 2 ár hafa gífurlegum fjármunum verið varið í þróun á nýju torfæruhjólunum þeirra. Vöruþróun er fjárfesting, og það fyrirtæki sem fjárfestir ekki, á ekki vaxtarmöguleika. Cannondale er skráð á Nasdaq undir kennimerkinu “BIKE”. Gengi bréfanna hefur fallið á rúmu ári úr 2$/hlut niður í tæpan 1$/hlut, en s.l. ár hefur verið erfitt fyrir allan iðnað í USA. Velta Cannondale jókst hinsvegar s.l. ár mun meira en sambærilegur iðnaður í USA, eða um 257% umfram meðaltalið. Síðasta viðskiptadag Nasdaq (24.01.2003) hækkaði gengi bréfa Cannondale um 4%.
Það er ekki aðeins staðföst trú á eigin framleiðslu sem styrkir Cannondale í sókn sinni, heldur einnig spörkin frá samkeppnisaðilunum – sem sumir hverjir virðast eyða meiri orku í að sparka í liggjandi hund frekar en að klappa eigin ketti. Bjarni Bærings.