Klaustur eða ekki Klaustur

Eins og frægt er orðið, þá var keppninni á Klaustri 2011 á endanum aflýst.  Það var þó ekki gert fyrr en eftir tilraun til að bjarga henni. Rétt áður en að upprunalegum keppnisdegi kom, hófst gos í næsta nágrenni.  Ekki góð staða og gríðarlegt undirbúningsstarf virtist unnið fyrir „gíg“! En viti menn!  Gosið var stutt og eins og hendi væri veifað, gerði norðanáhlaup og askan sem allt ætlaði að gleypa, virtist að mestu fokin á haf út.  Aftur sást í tún og engi og ekki virtist vanta nema góða rigningu til að skola burt síðustu öskukornunum. Brúnin léttist á mönnum og vonin vaknaði um að bjarga mætti keppninni, enda nokkur þrýstingur frá vélhjólasamfélaginu um það.  

Málið var skoðað með jákvæðu hugarfari og fljótlega kom hvítasunnudagur upp sem álitlegur keppnisdagur.  Í raun var það sá dagur eða enginn  – það er ekki mögulegt að halda svo stóra keppni síðsumar og skila svæðinu sundurtættu í kjaft vetrar.Allt var sett á fullt og sjálfboðaliðar og velunnarar Vélhjólaíþróttaklúbbsins tóku höndum saman um að halda bestu Klausturskeppni í sögunni.  Tilhlökkunin var mikil enda var búið að vinna mikið starf síðan í fyrra.  Stjórn hafði setið marga fundi og farið vel yfir þau mál sem betur máttu fara í fyrra, og landeigendur drógu hvergi af sér við úrbætur. Þeir höfðu smíðað salernisaðstöðu með tilheyrandi rotþró og rennandi vatni og mýrinni frægu var ýtt upp með stórvirkum vinnuvélum til að forða okkur öllum frá mýrarmartröð síðasta sumars. Þar er nú kominn hreint ágætur sandkafli.

Það er mikil gæfa fyrir félagið að eiga samstarf við fólkið á Ásgarði. Um páskana hafði 14 manna hópur farið á fimm bílum, austur að Ásgarði og ásamt mönnum úr sveitinni, var unnið yfir helgina við smíðar og margs konar frágang á keppnissvæðinu ásamt því að rafstrengur var lagður um einn og hálfan kílómeter að þjónustusvæðinu. Nokkrir höfðu  svikist um í vinnunni sinni, til að ganga frá umsóknum um keppnishald eða tala til mögulega styrktaraðila eða þá sinna öðrum nauðsynlegum erindum. Einhver varð jú að hanna límmiða, annar að sjá um skráningu og enn aðrir sáu um að halda utanum „Race Police“ eða semja um öryggisgæslu. Þannig mætti lengi telja, því svona keppni heldur sig ekki sjálf. Hún getur eingöngu orðið með samstilltu átaki fjölda áhugasamra einstaklinga og styrktaraðila.  Gróflega reiknað má ætla að stjórnarmeðlimir VÍK hafi lagt u.þ.b. 800 klukkustundir í undirbúning og utanumhald vegna þessarar keppni – fyrir utan þann tíma sem aðrir lögðu í þetta. Það ríður enginn feitum hesti frá þessu, að öðru leiti en því að félagsskapurinn er góður.  Í raun eru allmargir sem leggja ekki bara tíma sinn til málsins, heldur setja einnig í þetta töluvert fé.  Á annað hundrað þúsund krónur fóru í hönnun og prentun bæklinga o.fl. en í heildina má áætla að VÍK sé búið að setja á fimmtu milljón króna í þessa keppni, löngu áður en hún er haldin.

En keppnin gat samt ekki orðið – þrátt fyrir samstillt átak, jákvæðni og sokkinn kostnað.  Ekkert gekk eftir eins og vonast var til.  Rigningin var ekki langt undan, EN kom aldrei og askan sem virtist hafa fokið öll á haf út, lúrði enn að nokkru marki í sverðinum.  Enn frekari þurrkur og hífandi austanrok gerði stöðuna enn verri. Á endanum varð stjórn VÍK að játa sig sigraða og aflýsti keppninni á síðustu stundu. Hundleiðinleg ákvörðun en nauðsynleg þó.  Engum gekk annað en gott til með þessu öllu, en svo fór sem fór! Þess má geta að fréttaskot um „Toppaðstæður“ var ekki á vegum stjórnar og var sett inn af ótengdum en velmeinandi vefskrifara sem vildi leggja sitt að mörkum í að byggja upp stemningu.  Óheppilegt í ljósi þess sem síðan varð!

Sem betur fer virðast Íslendingar flestir vera þannig gerðir að við svona aðstæður tauta þeir eitthvað fyrir munni sér, en setja svo undir sig hausinn og halda staðfastir áfram, jafn áræðnir sem áður – það gengur bara betur næst!  Það var líka fjöldi aðila sem létu frá sér jákvæðar og uppbyggilegar athugasemdir, þrátt fyrir ergelsið og útlagðan kostnað.

Því var hins vegar ekki að dreifa hjá öðrum hópi manna.  Hópi manna sem sker sig úr hvað varðar fúkyrðaflaum og niðurrifsstarfsemi.  Í hvert sinn sem þessar mannleysur verða fyrir mótlæti, þá virðist ekkert sefa grát þeirra betur en fullur peli af einhvers konar bull-bloggs-blöndu. Ógeðisdrykk þessum gusa þeir svo ofaní hvorn annan með svo miklum hamagangi að nærstaddir, óviðkomandi, eru allir útataðir. Meðlimir þessa grátkórs virðast nærast á því að úthúða m.a. stjórnarmeðlimum VÍK, sem mest þeir mega. Ekki eru þessar vitsmunabrekkur allar jafn öruggar með sig, því fæstir þora þeir að koma fram undir réttu nafni. Það er með ólíkindum hversu fátæklegt og ekki síður lágkúrulegt framlag þessara manna er til sportsins.  Þeir virðast enga sómatilfinningu hafa yfirhöfuð og hika ekki við að segja mönnum til syndanna varðandi  keppnishald eða bara hvað eina.  Það er engu líkara en að baki liggi áratuga reynsla í öllum málaflokkum hjá þessum „besservisserum“ dauðans. Hið rétta er hins vegar, eins og allir vita, að þessir einstaklingar hlaupast alltaf fyrstir manna undan merkjum þegar á reynir.  Þetta eru ekki mennirnir sem mæta á vinnukvöldin eða taka að sér að sitja í stjórnum.  Þeir gefa ekki af sér tíma eða fé til uppbyggingar á félagsstarfinu.  Þetta eru einstaklingarnir sem koma fyrstir á staðinn eftir að undirbúningi er lokið og veislan er að hefjast.  Þegar svo kemur að því að taka til, þá pakka þeir strax saman, flýja heim í hlýjuna og hefja sitt uppblásna nöldur-blogg – haldandi að þeir séu að gera gagn. Bara að þeir vissu hve meðhlægjendur þeirra eru fáir!

Þó stundum heyrist hátt í mönnum sem þessum, þá eru þetta sem betur fer fámennur hópur.  Miklu fleiri eru tilbúnir að leggja hönd á plóginn. Það er þakkarvert og Þess vegna verður Klausturskeppnin haldin að ári.  Stjórn VÍK stefnir að því að Off-Road Challenge keppnin verði haldin þ. 27. maí 2012.  Upprunalegi keppendalistinn frá 2011 mun gilda – keppnisgjald greitt fyrir 2011 gengur upp í keppnisgjald að ári.Stjórn VÍK þakkar kærlega fyrir alla veitta aðstoð og jákvæða aðkomu vegna keppninnar sem þó aldrei varð.  Megi sumarið verða gott hjólasumar fyrir okkur öll.

Stjórn Vélhjólaíþróttaklúbbsins

10 hugrenningar um “Klaustur eða ekki Klaustur”

  1. Flottur pistill framan af fynnst samt liður 6 óþarfur þar sem bloggararnir eru svo fáir og flestir nafnlausir óþarfi að klúbburinn sé í svona sand-kassa-leik. Auðvitað eru allir að reyna sitt besta til að allt gangi upp og oft er nóg að vera keppandi því án þeirra er engin keppni:)ekki rétt? Ég hef oft lagt mitt af mörkum til að hjálpa til samt fengið að heyra það að ég geri aldrei neitt frá ótúlegustu mönnum. En svona er lífið og hefur alltaf verið því miður einn stór sand-kassa-leikur.

    Kveðja Pétur#35 sem mætir einu ári eldri á klaustur 2012 og ekkert við því að gera frekar en öskufallinu:):)

  2. Mér finnast flestir vera nokkuð sammála Vík stjórnini í þeirra erfuðu ákvörðun allavega heyri ég ekkert annað.Vík stjórnin ætti að vera orðin vel brynjuð gagnvart mannleysum sem þora ekki að koma fram undir nafni látum þá ekki eyðileggja gott hjólasumar fyrir okkur öllum.Er farin í Bolöldu bæ

  3. Sammála Pétri með sandkassaleikinn VÍK á ekki að taka þátt í honum og sérstaklega ekki með þessum hætti og er kominn á sama plan og þeir sem VÍK er að kvarta yfir….. Sjáumst að ári

  4. Ég er nokkuð nýr í þessu sporti, hef einu sinni tekið þátt í Klausturskeppninni og það var í fyrra, nota slóðana í Bolöldu af og til með góðri samvisku þar sem ég greiði félagsgjöld. Ég er einn að þeim sem gagnrýndi þá ákvörðun um að halda keppnina síðustu helgi án þess þó að hrauna yfir mann og annan eftir að hafa komið heim vel pirraður en er nú sultu slakur yfir þessu öllu saman. Eftir að hafa lesið fyrri hlutann af þessum pistli þá er ég ekki frá því að ég hafi fengið smá samviskubit og hvað ég væri að kvarta yfir tímanum og peningnum sem ég eyddi í þetta. En eftir að hafa lesið seinni hlutann sem er jafn ómerkilegur og sá fyrri er góður þá spyr maður sig út á hvað ganga þessi samtök og eru þau hafin yfir gagnrýni, eru menn ekki í þessu af hugsjón og áhuga, allavega ef markmiðið er að fjölga félagsmönnum, vinna að uppbyggingu og gera íþróttina skemmtilega þá ætti stjórnin að endurhugsa PR stefnuna því orðaskipti sem þessi skila engu, nema þá leiðindum og óánægju félagsmanna.

  5. Svo innilega sammála þér „Sam“

    Trúði varla því sem ég var að lesa þegar kom að 6 lið.

  6. Sammála Pétri, Ella og Sam. Mjög flottur og ýtarlegur fyrri hluti.

    Vona að Katla fari ekki að trufla 2012 😉

  7. Var ekki sáttur fyrr en nú,bloggaði ekkert um þetta en hlakka til að mæta að ári, er í vífa,hjálpa ekkert þar til en langar að bæta úr því og gera eh á vinnudögum þeirra,Takk fyrir að gera sportið svona skemmtilegt allir þeir sem vettlingi lifta í öllum brautum sem eru til á landinu Kv Birkir.

  8. Veit ekki hvar ég á að byrja… þannig bara til hamingju með daginn hjólamenn og konur og aðrir sjálfstæðir Íslendingar.
    kv.
    Katoom

Skildu eftir svar