International Six days enduro keppnin er líklega elsta mótorsportkeppni í heiminum þar sem enn er keppt árlega. Keppnin var fyrst haldin árið 1913 í Englandi og verður haldin í Finnlandi í 86.skipti í ár og þykir mikill heiður að sigra keppnina. Íslendingar eru að senda lið til keppninnar í fyrsta skipti og er þetta fyrsta landslið sem MSÍ hefur sent til keppni í Enduro.
Haukur Þorsteinsson hefur verið aðaldrifkrafturinn á bakvið för liðsins í ár og vefstjóri náði af honum spjalli í gær þegar liðið kom saman kvöldið fyrir brottför. „Ég hef alltaf haft áhuga á að hjóla bæði enduro og annað svo hefur maður heyrt í mönnum tala mikið um þetta Six days í gegnum árin en ég hef aldrei hugsað útí neinar alþjóðlegar keppnir eða landslið og vissi í raun ekki af þessari keppni eða um hvað hún snérist. Á endanum fór ég á netið og leitaði uppi keppnina og las mig til. Ég minntist svo á þetta við Kalla Gunnlaugs formann MSÍ og þar frétti ég að menn hafi oft spáð í að senda lið og en alltaf eitthvað staðið í veginum. Ég spurði hann hvort ég ætti ekki bara að setja saman hóp því kannski erum við ágætir í enduro. Það var lítið mál og ég tók upp símann og hringdi í menn sem ég taldi koma til greina, allir tóku vel í þetta en kostnaðurinn var auðvitað talsverður sem setti strik í reikninginn. Það var úr að við erum að fara 6 ökumenn og 6 aðstoðarmenn og allir bara skelfilega spenntir.“
Hvað eruð þið eiginlega að fara útí?
„Já það er nú spurningin, ég er búinn að liggja á netinu síðustu daga og reyna að koma mér upp mynd af því sem fram fer. Við verðum að hjóla í 6 – 8 klukkutíma á hverjum degi en uppbyggingin er líkari rallý en því sem við þekkjum héðan úr Endúró eða Cross Country. Það eru hálfgerðar ferjuleiðir sem þú færð vissan tíma til að keyra, hvorki máttu vera of fljótur né of seinn í mark, og svo koma „Special Test“ þar sem keyrt er í stuttan tíma á fullri ferð og telja þær sekúndur meira.
Við gerum okkur einnig grein fyrir að við munum ekki sigra heiminn í fyrstu tilraun. Fyrsta árið verður klárlega notað til að safna reynslu. Á fundum okkar hingað til höfum við rætt að við ætlum að keppa og taka á því en einnig að anda rólega og komast í mark, gríðarlega mikilvægt að koma 5 mönnum í mark af þeim sex sem keppa því það telja 5 bestu af 6.“
Hvernig er íslenska liðið?
“ Þetta er óneitanlega skrautlegur hópur“ segir Haukur og hlær,“ við erum allavega talsvert eldri en landsliðið í motocrossi. Gamlingjarnir eru ég og Stefán frá Mývatni, svo er þarna Jonni sonur hans, Daði Skaði, Kári og Árni lögga. Þetta eru kannski menn úr öllum áttum en allt hraðir ökumenn og traustir. Reynslan hjá þessum mönnum er auðvitað misjöfn en allir hafa eitthvað fram að færa. Við þetta bætist 6 manna lið öflugra aðstoðarmanna sem er ómetanlegt. Tedda var svo gerð að liðstjóra.“
Hvað er markmiðið:
„Við erum nú svo ofboðslega bjartsýnir Íslendingar að við viljum vera í kringum miðjan hóp! Það er okkar stefna þó við verðum kannski langsíðastir þá kemur það bara allt í ljós.
Í hvaða flokki keppið þið?
„Við keppum í stóra flokkum, Trophy Team, þar sem 6 keppendur eru í hverju liði en 5 bestu telja. Aðrir flokkar eru Club team, Youth team og kvennaflokkur með færri í liðunum. Svo er mikilvægt að halda stöðugleikanum því ef þú klúðrar einum degi þá ertu úr leik, ekkert aukahjól og engir sénsar. Það er 15 mínútur á morgnana og 15 mínútur á kvöldin til að gera við þannig að það er mikilvægt að tæta ekki mikið upp dekkin.
Svo er skylda að vera í treyju í fánalitunum þannig að við verðum í flottum Henson göllum og vonumst til að menn taki eftir okkur. Spáin er uppá 10 stiga hita og rigningu og ef það stenst eigum við kannski eitthvað forskot á Kanana.“
Karl Gunnlaugsson formaður MSÍ sagði einnig við þetta tækifæri að auðvitað væru menn ánægðir með að loksins skuli lið vera komið út í endúróinu. Þetta væri búið að vera draumur margra lengi en ekki hafi náðst að koma þessu á koppinn hingað til.
Við óskum liðinu góðs gengis og munum fylgjast með þeim hér næstu daga.
Opinber heimsaíða keppninnar er hér.