Þyrla stöðvaði stóran hóp torfæruhjólamanna

LÖGREGLAN á Hvolsvelli fékk þyrlusveit Landhelgisgæslunnar til liðs við sig í gær til að leita að stórum hópi torfærumótorhjólamanna sem mikið hafði verið kvartað yfir á hálendinu að Fjallabaki, m.a. fyrir utanvegakstur skammt frá Hvanngili. Þyrlan TF-LÍF stöðvaði hópinn skammt fyrir ofan Hrauneyjar en enginn í hópnum vildi kannast við að hafa ekið ógætilega, hvað þá að hafa ekið utan vega.
Samkvæmt upplýsingum frá skálaverði Ferðafélags Íslands í Hvanngili fóru um 30 manns á torfærumótorhjólum þar um á laugardag. Á um 100 metra kafla, eftir að akvegur og göngustígur greinast í


sundur, voru ummerki eftir utanvegaakstur fimm til sex mótorhjóla. Einu þeirra hafði verið spólað í hring skammt frá göngubrúnni yfir Kaldaklofskvísl og voru förin eftir það bæði djúp og ljót. Það var hótinu skárra að förin voru öll í möl og sandi en ekki í mosa eða grasi.

Skálavörður lét lögreglu vita af ferðum mannanna og raunar barst lögreglu töluverður fjöldi af kvörtunum vegna stórs hóps mótorhjólamanna á þessum slóðum. Ýmist var tilkynnt um ofsaakstur eða utanvegaakstur, nema hvort tveggja væri.

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli urðu þessar tilkynningar til þess að ákveðið var að fá þyrlu Landhelgisgæslunnar til aðstoðar enda erfitt að hafa uppi á hópnum með öðrum hætti. Tveir hópar komu í leitirnar, annars vegar 30 manna hópurinn sem reyndist hafa verið í helgarferð um hálendið en hins vegar þriggja manna hópur í dagsferð. Flestir voru þeir á svokölluðum Enduro-hjólum sem eru fyllilega lögleg á öllum þjóðvegum en þrír voru á Motocross-hjólum sem ekki er hægt að skrá til aksturs á vegum og voru þau því kolólögleg. Viðkomandi ökumenn verða kærðir, að sögn lögreglu.

Engin ummerki sáust um utanvegaakstur í þessari ferð en að sögn lögreglu er mikið um för eftir torfærumótorhjól á söndunum norðan við Heklu. Enginn ökumaður hefur þó enn verið staðinn að verki við utanvegaakstur þar.

Skildu eftir svar