Aðalfundur Vélhjólaíþróttaklúbbsins verður haldinn 9. nóvember nk. kl. 20 í fundarsal ÍSÍ við Engjaveg. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf, kosning í nefndir og stjórn, skýrsla stjórnar og samþykkt reikninga.
Á aðalfundinum núna munu tveir stjórnarmenn hætta störfum og tveir nýir menn koma til liðs við stjórnina. Framundan er áframhaldandi uppbygging á félagsstarfinu og svæðinu í Bolaöldu og heill hellingur sem okkur langar að gera með aðstoð góðra manna og kvenna í stjórn og nefndum. Nýtt fólk sér hlutina oft með öðrum augum og við viljum endilega fá fleiri til að vinna með okkur. Þeir sem hafa áhuga á að leggja félaginu lið geta því haft samband eða sent tölvupóst á vik@motocross.is til að bjóða sig til starfa í stjórn eða nefndum. Nokkrir þankar um sl. ár …
Sl. ár hefur verið ansi sérstakt og það verður vonandi bið á að við sjáum aftur eins skrýtið tímabil. Keppnishaldið hefur oft gengið betur – hvenær hefur það gerst t.d. að eldgos trufli keppni tvö ár í röð! 🙂 Það er sem betur fer hægt að brosa að þessu núna en þetta var verulega svekkjandi fyrir alla sem að þessu komu. En við höldum ótrauðir áfram og keppnin á Klaustri verður haldin á svipuðum tíma á næsta ári ef allt gengur að óskum og eldfjöll í nágrenninu eru vinsamlegast beðin um að hafa hægt um sig.
Annars hefur aðsókn í sumar að brautunum verið með minnsta móti og innkoma af þeim í sögulegu lágmarki. Svipaða sögu er að segja af öðrum brautum og ljóst að kreppan er að bíta af hjólatímanum hjá mönnum, skiljanlega. Þetta gerir það að verkum að minna er framkvæmt og allra leiða er leitað til að viðhalda svæðunum með þeim tækjum sem við höfum á staðnum með lágmarkstilkostnaði. Þetta gekk mjög vel í sumar og brautir og slóðar voru yfirleitt í mjög góðu ástandi. Reyndar er það orðið ansi magnað hvað þurrkar eru orðnir algengir hjá okkur. Sl. þrjú ár hafa brautirnar verið nánast ókeyrandi í 4-6 vikur í júní og júlí vegna þurrka. Bolaöldubrautin er reyndar með vökvunarkerfi sem var keyrt nánast viðstöðulaust allan þennan tíma. Þetta er hreint ekki ódýrt og stundum efumst við um árangurinn af því að keppa við sólina. :/
Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á deiliskipulagi af svæðinu í kringum Bolaöldu en Ökukennarafélag Íslands hefur hug á að reisa ökugerði á svæðinu á milli Litlu kaffistofunnar og VÍK svæðisins. Ölfus og viðkomandi hafa samþykkt þessar pælingar og ef deiliskipulagið verður samþykkt getum við búist við heilmikilli uppbyggingu þarna við hliðina á okkur. Þetta getur haft heilmikla kosti í för með sér fyrir okkur s.s. betri veg inn á svæðið og samnýtingu og samstarf við byggingu á húsum í framtíðinni.
Margt gott hefur amk. gerst á árinu og margt hefðum við viljað geta gert betur en það gerist bara á næsta ári. Eins og vanalega sýnist sitt hverjum um allt þetta starf og án efa margar skoðanir á öllu sem félagið og stjórn tekur sér fyrir hendur. Ef þú ert með skoðanir og/eða hugmyndir þá mætirðu á aðalfundinn og lætur í þér heyra. Sjáumst þar.
Stjórn VÍK
Þetta ætti að verða spennandi fundur. Nokkuð viss um að það verður barist um hvert sæti í stjórn. Nú er tækifæri til að láta félagsfrömuðinn í sér koma í ljós. Sjáumst á aðalfundinum.
Óli Gísla.