Lánið lék ekki við íslenska liðið á Motocross of Nations sem haldið var um helgina í Teutchental í Þýskalandi.
Keppnin var haldin 67. sinn en 40 lið mættu til leiks sem er fleiri en nokkru sinni fyrr. Tveir ökumenn hjá Íslandi lentu í óhöppum í undanrásum sem varð til þess að liðið varð ekki meðal þeirra 32 liða sem komust áfram í sunnudagsdagskránna, en þetta var í fyrsta sinn sem það gerist í þau 7 skipti sem Ísland hefur tekið þátt.
Kári Jónsson var fyrstur Íslendinganna að keppa. Hann var að keyra vel en á síðasta hring lenti hann í óhappi þegar hann skall saman við annan ökumann í stökki. Í lendingunni duttu báðir og þegar Kári stóð upp kom þriðji ökumaðurinn og keyrði Kára niður aftur. Kári náði þó að klára en hafði þá fallið úr 30. sæti niður í það 34.
Ingvi Björn Birgisson var næstur Íslendinganna að keppa. Hann sýndi jafnan og góðan akstur í MX2 flokknum og endaði í 32. sæti.
Eyþór Reynisson var síðastur út en þá var ljóst að hann þyrfti að enda í kringum 20. sæti til að Ísland kæmist áfram. Byrjunin lofaði góðu og var hann í 17. sæti fyrstu hringina. En þá krassaði hann illa og kláraði ekki motoið. Eyþór endaði á spítala með samfallið lunga en er nú allur að hressast.
Ævintýrið var því frekar stutt í annan endann þetta árið. Engan bilbug var þó að finna á liðinu og eru menn nú þegar farnir að skipuleggja næstu keppni sem verður í Lettlandi að ári.
Annars unnu Belgar keppnina með jöfnum og góðum akstri. Ken Rochzen frá Þýskalandi sigraði í MX2, Justin Barcia frá Bandaríkjnunum í MX1 og Antonio Caroli í MXopen.
Fleiri yndir frá keppninni má finna á vefalbúminu okkar, hér.