Núna hef ég lokið vinnu við að ræsa fram polla og tjarnir á motocrossbrautinni á Álfsnesi. Ég vil byrja á að þakka Heklu fyrir þann velvilja og traust á að lána VÍK beltagröfuna í þessa fjóra daga sem verkið tók og einnig þakka sérstaklega Óla sem gróf tvö kvöld og mátti vel sjá hver munurinn á vönduðum vinnubrögðum Óla og fúskinu hjá mér þegar ég kom á morgnana og sá hvað Óli var búinn að gera mikið. Við byrjuðum á að opna út úr öllum helstu pollum og tjörnum sem hafa verið til vandræða vegna drullu síðastliðið ár.
Fyrir vikið er brautin í sundur á 6 stöðum þar sem eru meters skurðir á breidd og að sama skapi meters djúpir eða meira. Einnig var bætt miklu af efni ofaná brautina á nokkrum stöðum þar sérstaklega þar sem brautin var lægri en landið við hliðina á henni og er hækkunin sumsstaðar allt að 2 metrar miðað við síðasta ár. Þessi aðgerð var nauðsynleg vegna þess að á síðasta ári var ekki neitt hægt að keyra í brautinni fyrr en eftir miðjan júlí vegna drullu, en við þessar aðgerðir ætti að vera hægt að taka brautina í notkun strax og frost er farið úr jörðu í vor. Brautin verður látin vera svona í a.m.k. mánuð til að þurrka hana. Á þeim tíma er meiningin að setja vatnsrör í brautina þar sem hún er í sundur og á eftir að redda rörunum, en ef þú sem þetta lest veist um rör sem gætu hentað láttu mig vita (sex tommu breið og helst úr svörtu plasti og þurfa að vera a.m.k. 10 metra löng), en allt kemur til greina í þeim efnum jafnt járnrör sem plaströr. Þegar þessu er lokið kemur jarðýta og sléttar brautina og verður það auglýst síðar því þegar jarðýtan er að slétta er gott að það sé töluverður mannskapur á svæðinu til að velta og draga stóra steina út úr brautinni. Sendi nokkrar myndir með svo að menn sjái muninn á upphækkunni og skurðunum sem gerðir voru.
Kveðja Hjörtur L Jónsson