Guðbjartur Magnússon og Gunnlaugur Karlsson sigruðu heildarkeppnina á Klaustri í gær með flottum akstri en þeir fóru heila 16 hringi á 6 klukkustundum og 5 mínútum.
Það viðraði ekki sérlega vel á okkur í gærmorgun aldrei þessu vant, rigning og þéttur vindur mættu keppendum þegar þær mættu á staðinn. Það stytti þó upp áður en keppni hófst en bætti í staðinn í vind en það truflaði ekki gleðina á þessum magnaða stað.
Brautin var í mjög góðu standi enda höfðu Eyþór og Hörður á Ásgarði lagt mikla vinnu í hana eftir síðustu keppni. Tveir nýir kaflar settu skemmtilegan fíling í brautina að auki, sérstaklega „kálgarðurinn“ þar sem brautin fór upp og niður sendnar hæðir þar sem djúpir battar mynduðust með mögnuðu gripi á milli, bara gaman. Brautin var keyrð „öfug“ í ár eða réttsælis annað árið í röð sem er skemmtileg tilbreyting en við munum væntanlega keyra réttan hring á næsta ári.
Keppnin fór vel af stað og var gríðar hörð keppni á fyrstu hringjunum þar sem menn skiptust á sætum hvað eftir annað. Þeir Gulli og Guðbjartur létu það reyndar ekki stoppa sig og héldu fyrsta sætinu frá upphafi til enda með frábærri keyrslu. Kvennaflokkinn sigruðu þær Guðfinna Pétursdóttir og Sóley Sara David með glæsibrag. Járnkallinn í ár var Aron Berg Pálsson sem keyrði heila 12 hringi án þess að stoppa nema rétt til að taka bensín og matarpásur. Þrímenningsflokk sigruðu þeir Örn Sævar Hilmarsson, Skúli Þór Johnsen og Halli Bjöss eftir harða samkeppni við Daða Skaða, Óliver Örn Sverrisson og Atla Má Guðnason.
Í tengslum við keppnina hefur myndast hefð fyrir því að gefa hluta af keppnisgjöldum til góðs málefnis í nágrenninu. Í ár var ákveðið að láta foreldrafélag grunnskólans á Kirkjubæjarklaustri njóta 100.000 kr. peningagjafar fyrir hönd keppninnar og keppenda allra.
VÍK þakkar öllum keppendum fyrir drengilega og góða keppni. Allir aðrir sem komu að undirbúningi keppninnar, brautargæslu og öllu þeim fjölmörgu sem hjálpuðu til við að gera þessa keppni jafn vel heppnaða og raun bar vitni. RedBull á Íslandi og Ölgerðin fá kærar þakkir fyrir samstarfið en veitingar eftir keppni voru í boði þeirra auk Snælands og Pétur Smárasonar sem gáfu keppendum og öðrum gestum hamborgara að keppni lokinni sem setti frábæran endapunkt á mótið. Smári Kristjánsson fær góðar þakkir fyrir sinn þátt í glæsilegum verðlaunagripum. Stórfjölskyldan á Ásgarði fær svo á að sjálfsögðu einstakar þakkir fyrir að taka svona vel á móti okkur öllum og leyfa okkur að halda keppnina í bakgarðinum hjá sér með slíkum glæsibrag. Það er hreint ekki sjálfgefið og ómetanlegt að fá svona móttökur og samstarf. Bestu þakkir frá VÍK og keppendum öllum. Sjáumst á næsta ári 🙂
Nánari úrslit eru í Excel skjalinu hér að neðan en þar er að finna röð keppenda í flokkum, hringjatíma og stöðu eftir hvern hring og sitthvað fleira.
Uppfært 1.6.2015 kl. 11.02 – hér er komið nýtt skjal með Overall úrslitum allra keppenda