Race police / keppnislögregla óskast á Klaustur

Fallega fólk. Nú er rétt tæplega vika í veisluna. Fyrir ykkur sem langar að koma austur til þess að vera með í gleðinni og viðra fákana, en viljið ekki vera alveg bundin við hringakstur allan tímann, er kjörið tækifæri að koma í race police. Þau ykkar sem hafa áhuga á slíku eru beðin um að hafa samband okkur í gegnum vik@motocross.is eða með því að tala við einhvern í stjórninni.

Verkefnið er í grófum dráttum það að keyra meðfram brautinni og um svæðið yfir keppnistímann og hafa vökul augu. Það þarf að fylgjast með því að stikur og brautarmerkingar haldi sér á sínum stöðum og að keppendur virði merkingarnar. Þannig að stundum þarf að stoppa og reisa við stikur. Einnig eruð þið „vopnuð“ talstöð. Ef þið sjáið keppanda stytta sér leið þannig að „einbeittur brotavilji“ sé greinilega til staðar, þá tilkynnið þið keppnisnúmer viðkomandi í talstöðina sem skilar sér þannig að viðkomandi keppandi fær víti. Einnig þarf að fylgjast með heilsu keppenda og þróun brautarinnar. Ef einhver kafli er að slitna þannig að hann sé að verða ófær, þarf að tilkynna keppnisstjórn það.

Við sköffum svo eldsneyti, bæði fyrir fák og knapa. Núna í ár minnum við svo á eina viðbót. Þegar þú ert búin/n að verja laugardeginum í að horfa á alla þessa keppendur keyra þessa skemmtilegu braut allan daginn, þá geturðu fengið að skella þér nokkra hringi á sunnudeginum. Því brautin verður opin í kringum hádegið á sunnudeginum einnig þetta árið.

Komd’og vertu með.

Skildu eftir svar