Eins og við auglýstum í gær, þá ætlum við að skoða öll keppnishjól fyrir Klaustur. Þá fer líklega einhver að velta því fyrir sér hvað það sé sem við erum að horfa eftir. Heilt yfir á hjólið að sjálfsögðu að vera í lagi og á það ekki bara við um Klaustur. Það á við um allan akstur á hjóli hvort sem það er í motocross-braut eða úti á slóðum. Hér er samt það sem við horfum eftir:
- Plöst eiga að vera heil, óbrotin og fest eins og ætlað var. Þau eiga ekki að geta skaðað notandann eða aðra keppendur.
- Handföng eiga að vera heil og óbrotin. Kúlurnar eru ekki á endunum eftir áralangar prófanir í vindgöngum. Það vill enginn fá brotið handfang á kaf í lærið á sér.
- Hjólið á ekki að leka olíu. Það á við um mótor, gírkassa, bremsur og dempara.
- Bremsur eiga að vera í lagi og virkar bæði að framan og aftan.
- Mörgum hefur þótt skrýtið að í svona skoðun séum við að horfa á gjarðir og prófa hjólalegur í hjólum, en staðreyndin er sú að mjög margir gleyma að huga að þessum hlutum. Þess vegna skoðum við þessa hluti.
- Við höfum kannski ekki haft það á orði, en stýrispúði á að vera í lagi. Það er til ein skelfileg íslensk saga tengd torfæruhjólum og stýrispúðaleysi.
- Við setjum hjólin ekki í gang í skoðun. En við höfum rétt til þess að vísa keppendum úr keppni ef pústkerfi reynist ekki vera í lagi. Hávaðamengun er sportinu ekki til frægðaraukningar og óþolandi fyrir alla í kringum þig. Þannig að ef það er mikill hávaði í nýja karbon-karbít Yoshimura-White Borthers-Vance&Hines pústinu þínu, pakkaðu þá kútinn kúturinn minn.
- Hafðu hjálminn með. Við skoðum hann líka. Ef hann heitir Bieffe og kjálkavörnin er skrúfuð á hann get ég lofað þér því að hann er orðinn of gamall.
Svo eiga pappírsmál að vera á hreinu. Keppnisviðauki í tryggingum, hjólið skráð, félagsgjöld í félag innan MSÍ greidd og í skoðun skrifarðu undir þátttökuyfirlýsingu.
Eruð þið ekki annars orðin spennt??