Á morgun, skírdag kl. 10 verða crossbrautirnar á Bolaöldum opnaðar. Búið er að setja efni í Byrjandabrautina, en það á eftir að gera hóla í hana.
65-85 brautin skemmdist mikið í vatnavöxtunum á föstudaginn var og fóru tveir pallar í ána sem myndaðist um helgina. Þessi braut verður löguð og hefluð í dag nema að ekki verða pallarnir lagaðir fyrr en öruggt er að vatnsvandamál eru úr sögunni.
Stóra brautin er öll komin undan vatni og verður farið með jarðýtu á hana í dag. Þegar stíflan brast og allt vatnið fór í brautina kom grjótskriða í brautina og fór hún líka í sundur á einum stað, en þetta verður lagað ásamt fleiru.
Varðandi fjölskylduskemmtidaginn þá er meiningin að eiga góðan dag upp frá og verður húsið opið frá kl. 10 til kl 16. Fólki er bent á að hafa með sér eitthvað til að drekka, en Arnar bakari á Suðurlandsbraut 4 ætlar að bjóða upp á meðlæti. Til stendur að fjórhjólaleigan verði með stutta fjórhjólatúra fyrir stóra sem smáa á vægu verði, en ég á eftir að heyra frá þeim endanlega með verð og lengd túra.
Fyrir endurofólk þá er frekar slæmt útlit, en þó er hægt að keyra á nokkrum stöðum s.s. veginn bak við Litlu Kaffistofuna og fl. Allir enduroslóðar eru enn eitt drullusvað, en hins vegar er veðurspáin þannig að ef hún rætist þá verður hægt að reyna við harðfennisbrekkur fyrir hádegi á morgun, en töluverður snjór er inni í Jósepsdal.