Í gær 8. maí var opnuð leiðin upp að Dverghamraskála og má fara niður Jósepsdalsskarð (fín æfingarleið fyrir endurokeppnina á Hellu, en ég ætla ekki að hefla þessa leið fyrr en eftir Klaustur svo menn fái smá æfingu í erfiðum og grýttum brekkum). Leiðin austur frá Dverghamraskála er lokuð og einnig Bröltgil andskotans. Allar leiðir út frá Bruggaradal eru enn lokaðar vegna bleytu.
Í gær kom í sjálfboðavinnu Hornfirðingurinn Elmar Már og fórum við saman inn í Jósepsdal á báðum
traktorunum og keyrðum efni í drullupittina inni í Jósepsdalshringnum (það er frekar dapurt að menn komi alla leið frá Hornarfirði í sjálfboðavinnu, en ekki hafa félagar úr VÍK verið of duglegir að koma í sjálfboðavinnu í vor).
Það er til skammar fyrir okkur hversu margir hafa verið að keyra fyrir utan slóðann þarna í Jósepsdalnum þar sem drullan var (er). Einnig er alltof mikið um að menn séu að keyra fyrir utan hefluðu leiðina í Jósepsdalnum, en það á ekki að þurfa að marg staglast á því að allur akstur fyrir utan slóða er stranglega bannaður þó að þetta sé bara sandur. Reglur svæðisins er að halda sig í hefluðum og merktum leiðum. Það stendur til að hóa í mannskap til að laga þessi sár á næstunni og verður það auglýst síðar. Ég vil svo minna á slóðafundinn í kvöld miðvikudagskvöld, en um 40 manns mættu á síðasta fund sem var mjög fræðandi.
Kveðja Hjörtur L Jónsson