Það er óþolandi að þrátt fyrir það mikla starf sem hjólafólk hefur unnið varðandi bætta umgengni hjólafólks og viðhorfsbreytingu almennings í okkar garð, skuli samt vera til fólk sem leyfir sér að gera svona og draga okkur hin niður í svaðið með sér. Þetta eru ekki landskemmdir unnar vegna mistaka eða þekkingarleysis, heldur hrein og bein skemmdarverk og á hiklaust að kæra þessa menn.
Því miður virðist veiðivörðurinn ekki hafa mikið vit á torfæruhjólum. Snorri er skemmtilegur kall og hefur skoðun á öllum málum sérstaklega gaman af því að láta blaðamenn tala við sig. Hann er því miður líka
fullur af fordómum í garð hjólafólks sem því miður veldur því að ég trúi ekki öllu sem hann segir. Sá sem ekki skilur vandamál getur tæplega leyst það svo vel sé. Af þeirri ástæðu á Snorri ekki að leggja til lausnir, amk. ekki fyrr en hann hefur kynnt sér málin. Hann talar um að flestir hjólamenn séu til fyrirmyndar og haldi sig á þar til gerðum svæðum. Í framhaldi leggur hann til til að lögreglan elti uppi fólk með mótorhjól á kerru sem láti sjá sig í námunda við Arnarvatnsheiði – enda séu þar engin svæði ætluð torfæruhjólum og menn með hjól á kerrum séu því á leið að fara að fremja lögbrot!!! Snorri sem er yfirlýstur andstæðingur motocrossfólks, þekkir því miður ekki muninn á motocrosshjóli og endurohjóli. Við hjólafólk þurfum því ekki aðeins að fræða annað hjólafólk um hvar má hjóla og hvar ekki, heldur líka almenning um sportið okkar almennt. Það er nefnilega mun meira til af Endurohjólum á landinu en motocrosshjólum, og eigendur þeirra hafa ekki nokkurn áhuga á því að aka í braut, heldur vilja njóta útivistar á krefjandi slóðum um allt land – líka á Arnarvatnsheiði.
Skoðið líka viðtalið í Skessuhorni
Uh.nefnd MSÍ hvetur félagsmenn til að hafa samband við lögreglu ef einhver hefur upplýsingar um hverjir voru þarna að verki.
– Gunnar Bjarnason