Hópur manna úr umhverfisnefndum Mótorhjóla- og snjósleðasambands Íslands (MSÍ) og Ferðaklúbbsins 4×4 lagði leið sína að friðlandi á Fjallabaki nýverið til að kanna gróðurskemmdir eftir utanvegaakstur sem mikið hefur verið fjallað um í fjölmiðlum uppá síðkastið.
Hópurinn ræddi við Pál Ernisson landvörð á svæðinu um skemmdirnar og vaxandi umferð vélknúinna ökutækja á svæðinu. Að því loknu var farið um svæðið í fylgd með Páli sem vísaði hópnum á ummerki utanvegaaksturs sem þar er að finna. Víða sjást skemmdir eftir vélknúin ökutæki á svæðinu en þó aðallega á sandlengju sem liggur meðfram veginum um Dómadal inn í Landmannalaugar.
Hópurinn kom með hugmyndir að ýmsum leiðum til að koma í veg fyrir umhverfisspjöll á svæðinu eins og t.d. að hækka undirlag aðalvegsins á að minnsta kosti einum stað til að koma í veg fyrir snjó- og krapamyndun á vorin . Greinilegt er að fólk reynir að forðast illfæra veghluta á leið sinni inní Landmannalaugar og kýs því frekar að aka utanvegar á köflum í stað þess að eiga hættu á að festast .
Töluvert er af mosaskemmdum á svæðinu en Páll tjáði hópnum að mikið af þessum skemmdum séu meira en tuttugu ára gamlar. Tilraunaverkefni er í gangi hjá Páli þessa dagana en hann hefur komist yfir "keðjudragara" sem hann mun nota til að krafsa upp hjólför á söndunum í kringum vegina. Páll segist hafa fulla trú á því að "keðjudragarinn" muni gera mikið gagn og um leið og hjólförin í sandinum hverfa mun utanvegaakstur minnka til muna.
Umhverfisnefnd samtakana stakk upp á samstarfi við landvörð um að laga gróðurskemmdir á svæðinu og var tekið mjög vel í þá hugmynd. Að öllum líkindum farið í það verkefni strax næsta vor.
Í ferðinni voru fyrir hönd U-MSÍ þeir Jakob Þór Guðbjartsson, Einar Sverrisson, Gunnar Bjarnason, Ásgeir Örn Rúnarsson og Aron Icemoto. Fyrir hönd umhverfisnefndar F4x4 var Þorsteinn Víglundsson.