Mótorhjólatryggingar

Höfundur: Heimir Barðason

Á vegum Snigla hefur undanfarin ár starfað Trygginganefnd. Þessi nefnd hefur á hverju ári átt í viðræðum við tryggingafélögin um lægri iðgjöld á Mótorhjólatryggingum. Þetta starf hefur ekki skilað neinum árangri síðastliðin ár og eru nú iðgjöld á þessum tryggingum í sögulegu hámarki. VÍK og VÍH eru í ár í fyrsta sinn með fulltrúa í nefndinni og má segja að ekkert markvert hefur gerst enn sem komið er. Við erum þó lauslega búin að skoða reglugerðir, fá tilboð í tryggingar og skoða rök tryggingafélaganna. Þar sem ljóst er að þetta er tapaður slagur í ár, þá ákváðum við að setja þær upplýsingar sem við höfum aflað á netið, til að spara símtöl og vesen fyrir þá sem hafa í hyggju að tryggja sinn fák.Lesið því vel og vandlega eftirfarandi;
Lögbundnar skyldutryggingar eru tvær. þ.e. ábyrgðartrygging ökutækis og slysatrygging ökumanns. Ef þú ætlar að hafa hjólið þitt á skrá þá þarftu að greiða fyrir þessar tvær tryggingar 520.000 kr. hjá dýrasta félaginu, VÍS. ( Miðað við engan bónus, og engar aðrar keyptar tryggingar) Það skiptir engu máli hvort þú ert með hjólið torfæruskráð eða götuskráð. Báðar skráningar eru í sama tryggingaflokki. Við vitum hinsvegar að það eru afslættir í gangi og gefum því eftirfarandi dæmi.

1. Ef þú ert 30 ára eða eldri, búinn að ná 75% bónus, átt einn til tvo bíla og ert með allar helstu tryggingar svo sem fasteignatryggingu, slysatryggingu, ferðatryggingu, átt þú að geta keypt tryggingu á hjólið þitt á rúmlega 40.000 kr.
2. Ef menn eru með hluta af þessum tryggingum en eru samt með 75% bónusinn, þá er hægt að grenja þetta út á 70.000 kr. Tekið skal fram að tryggingarfélagið metur hvern einstakling fyrir sig þegar það veitir þessa afslætti. þ.e. tryggingafélagið skoðar akstursferill þinn og flokkar þig í áhættuhóp.
3. Ef þú ert ekki með helstu tryggingar og undir 30 ára aldri þá er líklegt að þú reynir að tryggja í nafni föður eða móður til að ná ofangreindum verðum. Ef það gengur ekki máttu reikna með að þér takist ekki að prútta þetta niður fyrir 160.000 kr.

Af reynslunni vitum við að meirihluti hjólamanna aka um óskráðir og ótryggðir. Við þennan hóp segjum við:
1. Ef hjólið ykkar er einungis forskráð, þá vinsamlegast gerið sjálfum ykkur og öðrum þann greiða að klára skráningarferlið. Jafnvel þó ætlunin sé að leggja númerin strax aftur inn eða afskrá hjólið. Sá gjörningur gerir það að verkum að ef þið akið á einhvern og valdið honum varanlegu tjóni þá greiðir að minnsta kosti það tryggingarfélag sem hjólið var tryggt hjá síðast, bætur (þegar að skráningin var framkvæmd). Tryggingafélagið á svo að sjálfsögðu endurkröfurétt á ykkur ef þið eruð ólöglegir en þá situr a.m.k ekki sá örkumlaði í súpunni.
2. Við viljum einnig beina þeim tilmælum til umboðanna að þau láti ekki frá sér mótorhjól í framtíðinni sem einungis eru forskráð. Vinsamælegast klárið skráningarferlið. Það eru einungis V&S, Suzukiumboðið og Merkúr sem klára skráningarferlið eftir bókinni í dag.
3. Kaupið ykkur venjulega slysatryggingu og athugið sérstaklega að láta hana bæta slys við akstur á vélhjólum utan vega. Athugið að fá þetta skriflegt í skilmálunum. Slík trygging með einhverjum biðtíma er á ca. 80.000 kr og verður að teljast besti kosturinn fyrir alla drullumallara því það er alvega sama undir hvaða kringumstæðum þið slasið ykkur, þið fáið alltaf bætur.

Það væri hægt að skrifa langa ritgerð um þetta mál en við látum hér við sitja að sinni og vonum að menn hugsi sinn gang og uppfylli þessi lágmarks skilyrði sem við nefnum í þessari grein.

Skildu eftir svar