Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) hefur farið yfir fjölmiðlaumfjöllun Fréttablaðsins í kjölfar keppninnar á Klaustri. Eins og fram hefur komið hafði lögregla afskipti af einhverjum einstaklingum sem höfðu fíkniefni í fórum sínum. Að vel athuguðu máli er ljóst að einn þessara manna er félagi í VÍK.
Félagið fordæmir alla notkun fíkniefna í samræmi við stefnu aðildarfélaga ÍSÍ og ÍBR. Það að félagi innan félagsins verði uppvís að vörslu fíkniefna er litið mjög alvarlegum augum. Stjórn félagsins hefur því ákveðið að viðkomandi einstaklingi verður tafarlaust vikið úr félaginu og hann settur í ótímabundið keppnisbann.
Varðandi fréttaflutning fjölmiðla vill félagið árétta að á Kirkjubæjarklaustri um helgina voru staddir allt að 2000 manns í tengslum fjórðu Trans Atlantic Offroad keppnina. Allt keppnishald tókst með eindæmum vel og var keppendum og skipuleggjendum til mikils sóma. Félagið furðar sig því á fréttaflutningi Fréttablaðsins þann 30. maí sl. þar sem fíkniefnamál og innbrot sem framið var á Kirkjubæjarklaustri eftir að keppninni lauk eru tengd keppnishaldinu. Félagið hefur sent Fréttablaðinu skýr mótmæli vegna þessa. Félagið harmar að ritstjórn Fréttablaðsins skuli sýna neikvæðum fréttum sem tengdar er mótshaldinu á þennan hátt mun meiri áhuga en þeirri staðreynd að um helgina fór fram, með glæsibrag, stærsta akstursíþróttakeppni sem haldin hefur verið á Íslandi. Félagið hefur jafnframt óskað heilshugar eftir samstarfi við Fréttablaðið um faglegan fréttaflutning um viðburði á vegum félagsins og að blaðið sýni íþróttinni þá virðingu sem hún á skilið sem ein alerfiðasta keppnisgrein sem fyrir finnst. Innan raða mótorhjólamanna er fjöldi vandaðra einstaklinga sem leggja mikið á sig til að ná árangri í sinni grein. Fréttaflutningur sem þessi varpar óverðskuldaðri rýrð á erfiði þessara manna og uppgang íþróttarinnar í heild.
Virðingarfyllst,
Hrafnkell Sigtryggsson, formaður VÍK