Búið er að opna fyrir akstur um slóða-net Bolaöldu. Menn eru þó beðnir um að beita skynseminni vel í umgengni við slóðirnar – eins og alltaf. Þó svo að stígarnir séu að mestu orðnir þurrir, þá geta leynst í þeim einstaka bleytusvæði. Reynið að keyra ekki út fyrir stígana við slíkar aðstæður. Minnkið frekar hraðann og læðist yfir. Með því móti minnka líkurnar á skemmdum og slysum.
Varðandi slóðaakstur á vorin, snemma á sumrin og reyndar alltaf, þá er rétt að benda á eftirfarandi:
- Farið varlega í fyrstu ferðum. Bæði er hugurinn oft tilbúinn í meira en líkaminn ræður við, og svo liggja oft grjót í slóðunum eftir veturinn. Eins getur vatn hafa rofið stígana.
- Í þáatíð liggur oft lúmsk drulluskán í yfirborðinu, sem getur lagt menn umsvifalaust á andlitið.
- Gefið ykkur tíma til þess að stoppa á ákveðnum köflum og hreinsið frá leiðinlegar/hættulegar fyrirstöður. Ef allir gera þetta, þá má minnka hættuna á slysum til muna.
Munið svo gullnu regluna um að sýna öllu útivistarfólki virðingu, hvort sem viðkomandi er á vélhjóli, hesti, reiðhjóli eða bara gangandi.