Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) hélt á miðvikudagskvöldið vel heppnaðan opinn fund um málefni torfæruhjólafólks á Íslandi. Fjallað var m.a. um stöðuna skv. umferðarlögum og reglugerðum, tryggingar og tryggingavernd, barnakross og önnur atriði sem hafa verið í umræðunni undanfarið.
Frummælendur á fundinum voru Aron Reynisson, fulltrúi í Hjóla- og sleðanefnd ÍSÍ, sem ræddi stöðu torfæruhjólaíþrótta í Svíþjóð og bar hana saman við stöðuna hér á landi. Jóhann Halldórsson lögfræðingur og
stjórnarmaður í VÍK fjallaði um lög og reglur sem snúa að torfæruhjólum. Í máli hans kom skýrt fram að talsvert misræmi er á milli þeirra laga og reglna sem snúa að torfæruhjólum sem er algerlega óviðunandi. Sérstaklega var athyglisvert að sjá hið hróplega misræmi sem er á milli umferðarlaga og náttúruverndarlaga. Óðinn Elísson, lögfræðingur sem sérhæfir sig í tryggingamálum, hélt erindi um tryggingar og tryggingavernd torfæruhjóla. Hann lagði mikla áherslu á að hjólafólk hefði tryggingamál sín í lagi enda nefndi hann dæmi um sorglegar afleiðingar þess að vera vantryggður. Hann nefndi einnig dæmi um nýfallin dóm þar sem þátttakanda í motorkross keppni voru dæmdar slysabætur eftir að hann fell af hjóli sínu, enda var hann með hjólið sitt tryggt. Gunnar Bjarnason, umhverfisnefndarmaður, fjallaði um utanvegaakstur og þær aðgerðir sem Umhverfisnefnd VÍK hefur gripið til eftir að nefndin var stofnuð í fyrra vor. Að lokum tók Árni Friðleifsson, varðstjóri í Lögreglunni í Reykjavík, til máls og ræddi um akstur torfærutækja innanbæjar. Slíkt hefur verið vaxandi vandamál og er að sjálfsögðu ólöglegt. Fram kom í máli Árna að í flestum tilfellum væri um að ræða 15 – 17 ára hjólafólk sem oft á tíðum væri á hjólum foreldra sinna og hefði leyfi þeirra til að prófa hjólin á götunni heima! Oftast væru slíkir aðilar talsvert fjarri heimilum sínum þegar lögreglan kæmi að þeim. Árni sagðist ekki skilja hvað slíkir foreldrar væru að hugsa og tóku fundarmenn undir það.
Í lok fundar voru pallborðsumræður sem frummælendur tóku þátt í ásamt þeim Ragnheiði Davíðsdóttur frá VÍS og Ólafi Kr. Guðmundssyni frá Umferðarráði. Umræður voru mjög líflegar og þurfti Leópold Sveinsson fundarstjóri oft að grípa inn í til að stytta mál manna.
Á fimmta tug manna og kvenna mætti á fundinn og meðal þeirra var Ástríður Grímsdóttir, sýslumaður á Ólafsfirði sem ávarpaði fundinn og tók virkan þátt í umræðum. Hún hefur í starfi sínu þurft að taka afstöðu í málum sem snúa að torfæruhjólum og hefur niðurstaðan að hennar sögn stundum verið önnur en hjólafólk hefði óskað a.m.k. miðað við það sem sést hefur á spjallþráðum á motocross.is. Var það mál manna að þátttaka hennar í fundinum væri óvæntur heiður fyrir VÍK og mikil virðing við málefnið. Hún flýtti för sinni til Reykjavíkur um sólarhring sérstaklega til að geta mætt á fundinn til að kynnast viðhorfum og sjónarmiðum hjólafólks.
Formaður VÍK, Hrafnkell Sigtryggsson, tók að lokum til máls og þakkaði málshefjendum og öðrum þátttakendum fyrir fróðlegan og góðan fund. Hann bar síðan upp tillögu að ályktun fundarins sem samþykkt var með öllum greiddum atkvæðum.
Ályktun opins fundar Vélhjólaíþróttaklúbbsins
28. september 2005
Fundarmenn opins fundar Vélhjólaíþróttaklúbbsins skora á samgönguráðuneytið og viðskiptaráðuneytið að beita sér fyrir því að umferðarlög og reglugerðir sem tengjast vélhjólaíþróttum verði teknar til endurskoðunar með það að markmiði að skýra reglur um skráningar og notkunarsvið torfæruhjóla þannig að enginn vafi leiki á um tryggingavernd torfæruhjólafólks. Umferðarlög og reglugerðir taka ekki mið af torfæruvélhjólaíþróttinni eins og hún hefur þróast á undanförnum árum og því löngu tímabært að gildandi lög og reglugerðir taki breytingum í takt við tímann.
Fundurinn skorar jafnframt á Umferðarstofu, Umferðarráð og sveitarfélög að ganga til samstarfs við vélhjólaíþróttafélögin í landinu um aukna fræðslu og þjónustu við torfæruhjólafólk. Með því að taka höndum saman geta vélhjólaíþróttafélögin og ofantaldir aðilar aukið skilning á mikilvægi góðrar umgengni við landið og virðingu fyrir rétti annarra. Fundurinn vonast til að aukin samskipti auki ennfremur skilning þessara aðila á aðstöðuleysi og því sinnuleysi sem þessi ört vaxandi hópur hefur mætt á undanförnum árum.
Fundurinn skorar ennfremur á alla eigendur torfæruhjóla að virða gildandi lög um notkun torfæruhjóla, að aka einungis á þeim svæðum sem íþróttinni eru ætluð og aka aldrei utan vega.
Hér er mynd af hluta fundarmanna: