Vélhjólaíþróttaklúbburin hefur stigið stórt skref og ráðið til sín fyrsta starfsmanninn. Þann 1. desember sl. réði klúbburinn Hjört L. Jónsson sem framkvæmdastjóra félagsins. Í fyrstu mun Hjörtur vera í 40% starfi fyrir félagið en í vetur mun Hjörtur mest megnis vinna að fjármögnun svæða og framkvæmda auk undirbúnings þeirra. Ef undirbúningurinn gengur vel er markmiðið að Hjörtur verði ráðinn í fullt starf með vorinu.
Hjörtur er mörgum að góðu kunnur en hann hefur unnið gríðarmikið starf á undanförnum árum fyrir mótorhjólamenn. Að öllum öðrum ólöstuðum má án efa segja að sportið væri ekki jafn langt komið og raun ber vitni ef við hefðum ekki notið krafta Hjartar undanfarin ár. Hjörtur sinnti m.a. keppnisstjórn í fyrstu endurokeppnunum og í raun flestum ef ekki öllum endurokeppnum á vegum klúbbsins til ársins 2003.
Helstu verkefni Hjartar, gangi áætlanir stjórnar eftir, lúta að miklu leiti að umsjón með svæðum félagsins. Í því felst uppbygging og eftirlit brauta, umferðar- og verkstjórn ásamt eftirliti með uppgræðslu og gróðri. Þá mun hann sinna samskiptum við notendur svæðanna og aðstoða þá eftir föngum.Sérstök áhersla verður lögð á kröftuga uppbyggingu svæðisins við Bolöldu. Markmiðið er að laða þangað sem flesta ökumenn með því að tryggja að þar verði aðstaða sem henti þörfum allra iðkenda – bæði hvað varðar áhugasvið, aldur og getu.
Ráðning Hjartar er gott vitni um þann mikla vöxt sem íþróttin er í enda er umfang starfseminnar slíkt að ekki veitir af starfsmanni í fullu starfi til að sinna öllum verkefnum félagsins. Það er von okkar að ráðningin styrki starfsemina enn frekar og næsta sumar verði besta hjólasumar í manna minnum.
Kveðja, stjórn VÍK