Í Morgunblaðinu í gær birtist góð grein eftir Ómar Jónsson, þar sem hann skrifar um aðstöðuvanda íþróttarinnar og fl. Hér er greinin:
Það er deginum ljósara að torfæru mótorhjólaíþróttir eru ekki lengur jaðarsport. Mótorhjólaíþróttir hafa vaxið svo mikið að gera má ráð fyrir tvöföldun iðkenda árlega síðastliðin fjögur ár.
Ef ekki verður á næstunni bætt úr brýnni þörf á æfinga svæðum stefnir fljótlega í mikið óefni.
Ástæða þess að ég sting niður penna um málefni vélhjólafólks nú, er umræðan sem fram fór á Alþingi á
dögunum um aðstöðuleysi þessarar annars mjög skemmtilegu og fjöldskylduvænu íþróttar.
Nú í ár hafa verið flutt til landsins um 700 torfæruskráð mótorhjól sem hvergi má aka nema á þar til gerðum akstursíþróttasvæðum. Einnig um 200 torfæruhjól til viðbótar sem hægt er að götuskrá og aka má á götum, en af öllum þessum hjólum hefur verið greitt í ríkissjóð á milli 250 til 350 miljónir í opinber gjöld sem renna í ríkissjóð í formi tolla og virðisaukaskatts.Eins og staðan er í dag fá eigendur þessara hjóla nánast ekkert til baka frá ríkinu.
Þennan mikla áhuga á torfærumótorhjólum má eflaust þakka góðu og öflugu keppnishaldi vélhjólaíþróttaklúbba víðsvegar um landið.
Ber þar hæst keppni sem árlega er haldin á Kirkjubæjarklaustri, en í síðustu keppni voru keppendur um 400 frá mörgum þjóðum, en alls á keppnissvæðinu öllu um 2500 manns. Miðað við þennann fjölda keppanda og áhorfenda er þetta einn af stærri íþróttaviðburðum ársins á landinu.
Fyrir nokkru spurði Siv Friðleifsdóttir fyrrum Umhverfisráðherra, núverandi ráðherra hvort ekki væri þörf á að fjölga æfingarsvæðum fyrir torfærumótorhjól.
Ráðherra svaraði því til að mikil þörf væri á að fjölga æfingarsvæðum, en vísaði á sveitarfélögin því það væri þeirra að úthluta svæðum fyrir æfingarsvæði. Sú niðurstaða að vísa þessu á sveitarfélögin finnst mér viss vonbrigði.
Að fenginni reynslu minni af sveitarstjórnarmálum geta sveitarfélögin ekki úthlutað svæðum nema í samráði við ríkisvaldið.
Í ársbyrjun veitti bæjarstjórn Grindavíkur leyfi til Vélhjólaíþróttaklúbbsins fyrir akstri í landi sínu við Kleifarvatn frá 1. mars til 1. júní. Strax hófu vélhjólaíþróttamenn að æfa sig þarna við vatnið,og um páskahelgina mátti sjá við æfingar á milli 50 og 70 vélhjólaíþróttamenn daglega. Skömmu eftir páska bannaði sýslumaður akstur þarna á þeirri forsendu að um utanvegaakstur væri að ræða og leyfi frá sýslumanni fyrir æfingarsvæðinu væri ekki fyrir hendi. Þarna er sýslumaður fulltrúi Umhverfisráðuneytis og Dómsmálaráðuneytisins.
Vélhjólaíþróttamenn hættu að æfa á svæðinu, en fljótlega fór að bera á spólförum eftir mótorhjól víða um Reykjanesið á stöðum sem ekki er ætlaður er til mótorhjólaaksturs. Næst komu greinar í blöð um utanvegaakstur og gróðurskemmdir með stórum fyrirsögnum.
Þrátt fyrir góðan vilja bæjarstjórnarmanna í Grindavík og annara hlutaðeigandi, nema ríkisins gekk sú ákvörðun ekki eftir.
Næsta vor má gera ráð fyrir að sagan endurtaki sig ef ekkert verður að gert, þegar öll þessi mótorhjól fara á stað og ekki verður bætt úr aðstöðuleysinu.
Sé vilji fyrir hendi hjá stjórnvöldum til að leysa þessi mál á farsælan hátt eru til úrræði. Ríkið þarf að veita fjármagni til vélhjólaíþróttaklúbbana í samvinnu við þau sveitarfélög sem tilbúin eru til að láta svæði af hendi til æfinga.
Til dæmis hefur Vélhjólaíþróttaklúbburinn fengið æfingarsvæði í landi Sveitarfélagsins Ölfus við Jósepsdal. Framtakið er frábært og ljóst að sveitarstjórnarmenn í Ölfushrepp hafa skilning á vandanum.
Það sem upp á vantar er að land þetta er í nokkurri hæð yfir sjó og frost er í jörðu á þessum stað fram eftir vori. Til að hjólamenn geti notað svæðið sem mest á árinu þarf að vinna í svæðinu fyrir all nokkurt fjármagn. Þetta fjármagn er ekki til og því ljóst að þar verður ekki æft fyrr en í lok apríl eða byrjun maí
Með styrk frá ríkinu upp á 8-10 miljónir getur Vélhjólaíþróttaklúbburinn gert æfingarsvæðið tilbúið til æfinga í mars byrjun og vísað vélhjólaíþróttamönnum á þetta svæði. Ef ekkert verður gert fyrir þessa íþróttamenn byrjar sama sagan aftur, með akstri á svæðum þar sem ekki má aka en það gefur augaleið að spólförin verða fleiri.
Við vitum öll að það er ekki spilaður fótbolti á grasinu ef merktur fótboltavöllur er við hliðina á því.
Ég vil því skora á stjórnvöld að ganga til liðs við Vélhjólaíþróttaklúbbana og vinna að færsælli lausn á þessum vanda.
Ómar Jónsson.
Undirritaður er fyrrverandi sveitarstjórnarmaður, áhugamaður um mótorhjólaíþróttir, náttúruunnandi og áhugamaður um skógrækt og útivist.