Næstkomandi miðvikudagskvöld, 10. febrúar, stendur Ferða- og útivistafélagið Slóðavinir fyrir Sögustund í samvinnu við Bernhard Vatnagörðum. Nú sem endranær er sögustundin helguð frumkvöðlum í ferðamennsku á mótorhjólum þar sem sérstaklega er horft til ferðalaga í óbyggðum Íslands. Í sal verða til sýnis nokkur af þeim mótorhjólum sem notuð voru til ferðalaga hér á Íslandi í denn. Á seinasta ári tókst þessi viðburður vonum framar og mættu yfir 100 manns og hlustuðu á sögur og horftu á myndir af ferðalögum sem farnar voru fyrir rúmlega þrjátíu árum síðan. Í ár verður róið á svipuð, en þó ekki sömu mið, og verða m.a. sagðar sögur frá ferð Snigla á Látrabjarg, vorferð í Landmannalaugar á torfæruhjólum, ágústferð á NA-land ásamt fleiri sögum. Njáll Gunnlaugsson, höfundur Þá riðu hetjur um héruð – 100 ára saga mótorhjólsins á Íslandi, segir frá og sýnir myndir úr einstöku safni sínu. Sögustundin fer fram hjá Bernhard í Vatnagörðum, hefst kl. 19.00 og er allt áhugafólk um ferðalög á mótorhjólum velkomið. Veitingar í boði Bernhard og Slóðavina. Til sölu verður bók Njáls Gunnlaugssonar, en andvirði bókarinnar fer í uppbyggingu á mótorhjólasafni Íslands sem nú er í smíðum á Akureyri (www.motorhjolasafn.is).