Það var í gömlu góðu árdaga Sniglanna sem þetta klassíska jólalag kom í heiminn. Mótorhjólatöffarinn og leikarinn Skúli Gautason á heiðurinn af lagi og texta.
"Ég átti afmæli og það var veisla heima hjá mér," svarar Skúli að-spurður hvernig lagið varð til. Þá leigði hann hús ásamt Þormari Þorkelssyni, öðrum mótorhjólatöffara, á Görðum við Ægisíðu. "Þar var hálfgert félagsheimili fyrir mótorhjólabullur og oft gestkvæmt og glatt á
hjalla," segir Skúli. Hann rifjar síðan upp það sem fór fram í örlagaríku afmælisveislunni.
Börn og mótorhjól
"Við vorum eitthvað að velta fyrir okkur hvernig hugsunarhátturinn hefði verið hjá mótorhjólatöffurunum þegar þeir voru börn, um hvað þeir voru að hugsa. Flestir voru á því að hafa átt draum að fá mótorhjól í jólagjöf. Svo fóru af stað vangaveltur um það hvort hann væri ekki svolítið áberandi pakkinn og hvort það væri eitthvað hægt að fela þann pakka því að jólagjafir eiga að koma á óvart, ekki satt?" Upp úr þessum umræðum og vangaveltum spratt svo lagið "Jóla-hjól" og þar sem þetta var afmælisveislan hans Skúla var honum gefið það loforð í afmælisgjöf að lagið skyldi koma út á plötu. Hann og Þormar mæta daginn eftir upp í stúdíó Mjöt til að taka upp tvö lög, þar á meðal lagið um jólahjólið. "Þetta var glamrað á kassagítar og við bara rauluðum þetta inn," segir Skúli.
Milljón dollara hugmynd
Ætlunin var að gera lítinn 45 snúninga vínil og fóru þeir með upptökurnar upp í plötupressuna Alfa sem þá var suður í Hafnarfirði.
"Þá voru þeir í plötupressuninni í miðju jólaplötuflóðinu og voru einungis í því að pressa stóru 33 snúninga plöturnar. Til að koma okkar plötu inn hefði þurft að afgreiða allar stóru plöturnar fyrst og það var of mikið mál."
Á endanum varð platan þeirra á stærð við 33 snúninga plötu en spilanlegi hlutinn aftur á móti aðeins á stærð við 45 snúninga plötu. Meira en helmingur plötunnar var sem sagt auður.
"Síðan gáfu þeir okkur hvítt umslag utan um og við Þormar handskreyttum þessi hvítu umslög eftir óskum hvers viðskiptavinar og seldum þetta bara úti á götu. Við sögðum auðvitað ekki frá því að auða svæðið á plötunni væri út af þessum vandræðum í plötupressunni heldur létum við í veðri vaka að þetta væri alveg sérhannað. Þetta væri svona handfang þannig að maður gæti alveg gripið um plötuna með fitugum fingrum án þess að það kæmi niður á hljómgæðunum. Alveg milljón dollara hugmynd. Við prentuðum plötuna í einhverjum fimm hundruð eintökum sem seldust upp þessi jól."