Á göddum á gaddfreðnu

Eldur á ísnum

Ég er með uppástungu, svona bæði í gamni og
alvöru. Hvernig væri að læknastéttin athugaði þann möguleika að fækka
eitthvað pillunum sem skrifaðar eru út fyrir þá fjölmörgu sem þjást af
skammdegisþunglyndi á veturna og prófa að vísa á eitthvað sem mögulega
nærir bæði líkama og sál? Það er t.a.m. fátt yndislegra á köldum
vetrardögum en að þeysa eftir ísilögðum vötnum á mótorhjóli þar sem
áhyggjur heimsins eru skildar eftir á bakkanum stundarkorn og menn fá
útrás fyrir einfaldar en sterkar hvatir. Leikurinn snýst um að menn
haldi fullri einbeitingu og að nagladekkin haldi gripi á ísnum.


Galdurinn við beygjurnar er að sitja framarlega á hjólinu og
láta framdekkið halda gripi í ísnum og ekki spara bensíngjöfina.

Ísakstur hefur verið stundaður á Íslandi í mörg herrans ár og til er
mikil reynsla og mörg góð húsráð í þessari tómstundaiðju. Haukur
Þorsteinsson er eigandi verslunarinnar Nítró. Hann mætti með
dótakassann á klakann þar sem við tókum saman stuttan skrens á
tækjunum, Kawasaki KX 250, Husaberg 450 og einhverju furðulegu apparati
sem var eins og afkvæmi vélsleða og fjórhjóls en var óstöðvandi í
ófærðinni. Haukur gaf okkur svo nokkur góð ráð varðandi útbúnað í
ísaksturinn en hann veit sínu viti í þeim efnum. Einnig tókst mér að
draga Guðjón Guðmundsson, umsjónarmann Bíla, frá tölvuskjánum og út á
ísinn, svona rétt til að hann fengi nasasjón af sportinu. En snúum
okkur nú að Hauki og heyrum á hvaða hollráðum hann lumar fyrir
ísaksturinn.

Hvað er það sem er svona gaman við ísinn?

„Allt! það má segja að ísaksturinn fylli upp í dauða tímann þegar það
er ekki hægt að hjóla í motocross-brautum eða á fjallvegum. Einnig er
þetta mjög góður félagsskapur. Maður lærir líka gríðarlega mikið á því
að keyra á ísnum.“


Fjórhjólið er ekki beint kappaksturstæki en engu að síður var
mikið fjör og hasarinn mikill. Haukur smeygir sér hér í innri línuna á
Husaberg-hjólinu sem hafði nóg afl á beinu köflunum.

Geta allar stærðir og gerðir hjóla farið í ísakstur?

„Já
það geta allar gerðir hjóla verið á ísnum. Þetta er bara spurning um
réttan búnað. Það eru 50cc skellinöðrur á ísnum og síðan sjáum við
650cc endurohjól og allt þar á milli. Það hafa meira að segja sést
stærri götuhjól á ísnum, þannig að það geta allir komið sér á hann.“

Hvernig er best að útbúa hjólin í ísaksturinn?

„Númer
eitt er að vera á góðum dekkjum, það er að segja negldum dekkjum sem
fást í nokkrum gerðum. Einnig er hægt að kaupa skrúfur sem eru
skrúfaðar utan frá inn í dekkið og sumir hafa farið þá leið að skrúfa
dekkin innan frá með tréskrúfum. Nauðsynlegt er að setja neyðarádrepara
á hjólið sem drepur á vélinni ef ökumaður dettur af hjólinu og kemur
þannig í veg fyrir að hjólið skaði aðra nálæga. Smástillingar á
blöndungi tvígengishjóla geta verið nauðsynlegar vegna kuldans. Vera
vel klæddur, það er ekki gott að vera kaldur ef menn detta, þá er
hættara við tognun. Nú geta menn keypt upphitaðan fatnað, t.d. hjá
okkur í Nítró, s.s. vettlinga, sokka, treyjur og fleira. Einnig er hægt
að kaupa svokallaðar hitamottur sem settar eru undir handföngin til að
halda hita á höndum. Andlitsgrímur fást einnig og henta þær bæði vel í
kuldanum og einnig í sandinn á sumrin.“

{
B&B&B mætti útleggja sem Beltahjól fyrir
Björgunarsveitir og Bændur. Það er næstum ekkert sem stoppar þetta ofurtæki eins
og Haukur sýnir hér í djúpum snjó.

Hvaða öryggisbúnað og hlífðarfatnað þurfa ökumenn annan en gamla góða föðurlandið?

„Eins
og ég nefndi hér áðan er búnaðurinn á hjólin aðallega neyðarádrepari.
Hvað varðar ökumanninn sjálfan er nauðsynlegt að útbúa sig eins og ef
um crosskeppni væri að ræða, það er að segja hjálmur, brynja,
olnbogahlífar, hnéhlífar, crossskór, gleraugu, hanskar, góðar buxur og
jakki eða treyja.“

Hvað mundirðu ráðleggja byrjendum í sportinu varðandi líkamsbeitingu og aksturstækni?

„Það
er mikið atriði að vera hreyfanlegur á hjólinu, jafnframt því er
mikilvægt að vera afslappaður svo maður spennist ekki upp og pumpist
upp í höndunum, en það er þó nokkuð algengt að menn pumpist upp í
höndunum. Sem sagt muna að halda laust í stýri og passa að hanskar og
annar fatnaður þrýsti ekki það mikið á hendurnar að blóðið nái ekki að
renna eðlilega. Varðandi hreyfanleikann er t.d. hægt að benda á að
þegar komið er að beygju er gott að færa sig fram á hjólið til að ná
sem bestu gripi með framdekkinu og vera framarlega nánast alla
beygjuna, en þegar komið er út úr henni færa sig þá aftar á hjólið til
að koma sem mestu gripi á afturdekkið.“

Ádreparar eru nauðsynlegt öryggistæki á ísnum enda á spólandi
ísdekk ýmislegt sameiginlegt með vélsagarblaði. Þótt slys séu afar fátíð og
minniháttar fara menn mjög varlega.

Hvers lags mótorhjólamenn stunda ísakstur og er einhver aukning í þessari íþrótt milli ára?

„Ég
held að það séu allar gerðir manna og kvenna sem stunda þetta sport og
já það er áberandi aukning á milli ára. Nú sjáum við orðið meira af
ungu kynslóðinni koma á ísinn, krakka um og undir tvítugu. Einnig erum
við farin að sjá fleiri stelpur. Til gamans má geta þess að síðastliðið
sumar voru 3-5 stelpur að keppa á motocross-hjólum og það var ákveðið
að halda stelpunámskeið og fenginn til þess erlendur kennari. Öllum til
mjög mikillar undrunar mættu fyrsta kvöldið 19 stelpur, sem segir okkur
ýmislegt um áhugann á sportinu. Þessi fjöldi hefði talist nokkuð góður
í motocrosskeppni fyrir ekki nema 4-5 árum og þá á ég við í flokki
karla og það í heildina, því að á þeim tíma kepptu held ég engar
stelpur á crosshjólum.“

Hvað um þetta klikkaða fjórhjól, eða á ég kannski frekar að kalla þetta beltahjól? Hvað er málið?

„Já það er ekki nema von að þú spyrjir. Við vorum að fá þennan einstaka
beltabúnað sem passar undir flest 4×4 fjórhjól og hann hefur vakið
gríðarlega athygli. Það má segja að þetta sé bylting fyrir
fjórhjólaeigendur með 4x4x fjórhjól. Nú geta þeir notað hjólin sín
allan ársins hring og ekki nóg með það heldur komast þeir líka ótrúlega
mikið. Einnig tel ég það alveg ljóst að fyrir björgunarsveitir sé þetta
án efa eitt öflugasta björgunartæki sem völ er á. Tækið kemst hreinlega
allt, það dregur heil ósköp og það er gríðarlega góð ending á þessum
búnaði.“

Skildu eftir svar