Við fórum nokkur núna um helgina austur á Klaustur til að leggja hönd á plóg í brautarlagningu með Kjartani og Herði. Brautin er langt komin og legan á henni nánast tilbúin. Við keyrðum það sem komið var og hvernig líkaði okkur? Þessi braut er og verður engu lík – við áttum í mestu vandræðum með að skoða brautina því við misstum okkur alltaf í netta keppni. Nú er bara að skrá sig í tvímenning um næstu helgi og taka alvöru æfingu fyrir Klaustur.
Undirlagið er mest gras og mosi, einn kálakur, endalausir grashólar og á tímabili var þetta líkast því að keyra um á golfvelli. Á einum stað er mýri sem olli okkur talsverðum heilabrotum en ekki reyndist hægt að krækja fyrir hana. Það verður því farið í lítilsháttar framkvæmdir til að tryggja að hún verði fær. Niðri við Skaftána verða sandkaflar en talsvert styttri en við áttum von á en samt frábært svæði. Startið er klárt og pitturinn verður mun stærri og lengri en áður. Niðurstaðan er að við fáum væntanlega braut sem verður engri lík. Við tókum talsvert af myndum (reyndar engar í grashólunum, þar var bara of gaman til að mynda nokkuð!) og meðal annars með hjálmmyndavél sem við getum vonandi sett inn á vefinn fljótlega. Sverrir tók líka nokkrar myndir sem sjást hér