Vélhjólaíþróttaklúbburinn (VÍK) er áhugamannafélag um torfæruhjólaakstur, æfingar og keppnir í Motocross, Enduro og sambærilegum greinum. VÍK hefur verið starfrækt í áratugi og lengi barist fyrir framtíðarsvæði fyrir íþróttina. VÍK er aðili að Íþróttabandalagi Reykjavíkur og er þ.a.l. aðili að ÍSÍ.
Síðastliðin 2 ár hefur VÍK unnið náið með borgarstjórn og skipulags- og byggingarsviði Reykjavíkur að farsælli lausn sem nú er fundin. Stórt svæði á Álfsnesi var úthlutað og hefur VÍK byggt þar upp keppnisbrautir í Motocross, annarsvegar fyrir börn og unglinga og hinsvegar fyrir fullorðna.
Formleg opnun svæðisins verður n.k. laugardag, 23. ágúst 2003 kl. 13.00 með ræsingu fyrstu Motocross keppni í Meistaradeild á svæðinu. Okkur þætti vænt um það ef Borgarstóri, Þórólfur Árnason, eða hans fulltrúi, t.d. sviðsstjóri Skipulags- og byggingarsviðs eða Anna Kristinsdóttir, formaður ÍBR gæti opnað svæðið formlega og ræst keppendur.
Stjórn VÍK langar að bjóða sérstaklega velkomna á þessa opnun og Motocross keppni borgarstjóra, borgarstjórn, borgarráð, skipulags- og byggingarnefnd, stjórnar- og nefndarmenn ÍBR og ÍSÍ. Ég mun senda boðsmiða til þessara aðila og jafnframt láta liggja boðsmiða í móttöku ráðhúss Reykjavíkur.
Keppendur mótsins verða allt að 100 í barnaflokki, unglingaflokki, byrjendaflokki og Meistaradeild. Von er á fjölda áhorfenda ásamt fjölmiðlafólki sem fjalla mun um opnunina og mótið. Frú Siv Friðleifsdóttir, heiðursfélagi í VÍK hefur jafnframt boðað komu sína.
Með von um að sjá sem flesta, f.h. stjórnar VÍK, Bjarni Bærings.