Greinasafn fyrir flokkinn: 35+

Fréttir fyrir 35 ára og eldri

100 ára afmælishátíð, fréttatilkynning 2

Eins og lofað var þá mun koma ný fréttatilkynning 1-3 hvers mánaðar fram að júní 2005. Í síðustu fréttatilkynningu var farið lauslega yfir áætlaða dagskrá á Sauðárkróki.

Í þessari tilkynningu verður farið inn á tvo liði. Í fyrsta lagi er reynt að svara því hvort þörf sé á enn einni hjólahátíðinni.

    Vissulega er úrvalið af mótorhjólahátíðum orðið glæsilegt, en það sem vantar er sameginleg hátíð alls mótorhjólafólks og fjölskyldna  þeirra ásamt vina.  Landsmót Snigla hefur verið haldið árlega síðan 1987 ,fín mót í alla staði með gesti um 300-500, en þar er hvorki torfæruhjóladagskrá né fjölskyldusamkoma. Á Kirkjubæjarklaustri  er haldin frábær torfæruhjólakeppni á hverju vori með um 300 keppendur og eru um og yfir 1000 manns sem fylgja henni , en þar er ekkert annað en keppnin á dagskránni, en fyrir fjölskyldur keppenda og götuhjólamenn er lítið við að vera annað en keppnin. Reyndar eiga sum götuhjól í erfiðleikum með að komast á keppnissvæðið. Raftar í Borgarnesi halda fjölskylduhátíð á sumrin og samkvæmt fregnum af því er þetta hin besta skemmtun og vel skipulagt mót, en þar er ekkert gert til að fá torfæruhjólamenn á svæðið. Þetta eru sennilegast þrjár stæðstu hjólahátíðirnar, en eflaust eru margar smærri hátíðir sem eru mjög góðar í sinni mynd þó smærri séu (það eru sumir sem segja að stærðin skipti ekki öllu máli heldur gæðin). Þetta eru aðal ástæðurnar fyrir hátíðinni og þar sem við hjólafólk höfum hjólið sem lífsstíl. Nú er rétti tíminn til að heiðra mótorhjólið á 100 ára afmæli þess. Við erum eins og ein stór fjölskylda sem erum að fara í 100 ára ættar-afmæli langa afa mótorhjólsins á Íslandi sem er  Þorkell Þ. Clementz en hann flutti inn fyrsta mótorhjólið.

Seinni liðurinn er aðkoman og ferðalagið á Sauðárkrók í stuttri kynningu.Hugmyndin er sú að hjólafólk myndi einn risastóran orm (hjólahalarófu)  sem endar á Sauðárkrók að kvöldi 16. júní.

Ormurinn byrjar sitt líf á tveim frumum sem fæðast á sama tíma í Keflavík og á Selfossi kl 16,00 fimmtudaginn 16. júní. Frumurnar tvær aka svo til höfuðborgarinnar og ná sér þar í fóður í formi höfuðborgarbúa. Ætlunin er að um kl 17,30 verði ormurinn í Hvalfjarðargöngunum (en þar verður ekið beint í gegn því samið verður um að ekki þurfi að stoppa og borga í göngin). Í Borgarnesi verður svo bætt við borgnesku fóðri og haldið að Brú þar sem vestfirðsku hákarla fóðri verður bætt inn í hópinn. Á Blönduósi er bætt við fæðu úr Húnavatnssýslu . Á þessum tíma (eða um kl 21.00 ) eru Akureyringar og aðrir Eyfirðingar ásamt austfirðingum og Siglfirðingum að leggja af stað og stefnan er að allir vera í Varmahlíð kl 10.00 og aka saman á Sauðárkrók og mynda þar með stæðstu hópreið íslandssögunnar. Og hvaða staður er betur til þess fallinn að aka í stæstu “mótormerahópreið” en í “grasmótormerasýslunni” Skagafirði. Frábært væri að sjá a.m.k. 500 hjól í þessum lokakafla ferðarinnar.

Á Sauðárkrók er gott tjaldstæði sem er um 700 X 700 metrar og hugmyndin er sú að gera götur (Postulastígur, Sniglagata Vélhjólaíþróttaslóði og fl.) á tjaldstæðinu og verða göturnar nefndar eftir klúbbum og jafnvel hjólum. Með þessu verður til lítið þorp sem við ætlum að búa í um helgina 16. – 19. júní.

Með kveðju fyrir hönd undirbúningsnefndar Hjörtur liklegur@internet.is meira eftir mánuð.

 

E.S. Endilega látið vita ef verið er að gleyma einhverju með því að senda póst og ef þú lumar á góðri hugmynd þá láttu vita af henni.