Greinasafn fyrir flokkinn: Aðsendar greinar

Greinar sendar vefnum…lesendabréf

Íslandsmótið í enduro

Um helgina hófst íslandsmótið í Enduro, því miður voru keppnishaldarar og keppendur óheppnir með veður en því er auðvitað ekkert við að gera. Þó nokkrir hnökrar voru á keppnishaldinu varðandi hvenær og hvernig refsingum ætti að beita ef menn þóttu vera brotlegir. Vonandi eru þetta mannlegir byrjunarörðuleikar sem keppnishaldarar geta bætt fyrir næsta mót. Einnig stóðum við keppendur og þ.m.t undirritaður sjálfa okkur að fáránlegum ákvörðunum eins og að senda menn á móti umferð inní pitti aðrir skiptu um gleraugu út í braut o.s.f.r.v.

Við hin sem tökum þátt, mætum á mótsstað og keyrum í brautinni finnst oft eðlilegt að allt sé 100% og klappað og klárt, enn við megum ekki gleyma að þarna eru fullt af fólki að vinna að keppnishaldinu í sjálfboðavinnu svo að við hin getum keppt. Þannig skulum við öll halda þessu á góðu nótunum. Gera skriflegar ígrundaðar athugasemdir við mótshaldara ef okkur finnst eitthvað mega betur fara. Þannig fáum við á endanum betra og skilvirkara mót. Vonandi sjáumst við öll hress og kát á Akureyri næstu helgi. PS. Við megum ekki gleyma aðal atriðinu sem er að við erum að þessu til að hafa gaman, verði það undir þá mun keppnishaldið hnigna með tímanum.

Þór Þorsteinsson

Vafrari janúar mánaðar

Þó einungis séu tæpir átta dagar liðnir af þessum mánuði þá hefur Sveinn Markússon tvímælalaust unnið sér inn titilinn, „Vafrari mánaðarins“.  Til viðbótar við fyrri innlegg í dag þá sendi hann vefnum grein með mynd um fyrsta vélknúna vélhjólið á Íslandi.  Sveinn var ekki hættur þar heldur gróf hann upp „mugshot“ af einum af frægustu mótorhjólamönnum síðustu aldar.  Og enn var Sveinn ekki hættur.   Hann grefur upp grein sem var skrifuð fyrir danska helgarblaðið Weekendavisen og birt helgina 21.-22. júlí 2001.  Vefurinn selur þetta ekki dýrara en hann fékk það, en greinin er á íslensku, svolítið sjúskuð í uppsetningu en vefurinn hafði „ótrúlega“ lúmskt gaman af lesningunni. Grein skrifuð fyrir danska helgarblaðið Weekendavisen, birt helgina 21.-22. júlí 2001.:

Turen går til Island

Flestir ferðamenn koma til
Íslands til þess að fara útí Lesa áfram Vafrari janúar mánaðar

Bréf frá 1934 eða fyrir 70 árum síðan

Bréfið

Eftirfarandi bréf fékk afi minn sent frá vini sínum 1934 eða fyrir 70 árum. Afi var mótorhjóla kappi í gamla daga og ók Harley.  Þeystu hann og félagar hans um sveitir landsins.  Gaman er að lesa bréfið og greinilegt að dellan var engu minni 1934, mönnum líkaði bjór og fóru á kenderí og skoðuðu bíla og mótorhjólasýningar í útlöndum.

kveðja, Katoom


Í kjölfar fréttarinnar í DV

Í kjölfar fréttarinnar í DV sem getið er hér að neðan finnst mér rétt að vekja máls á eftirfarandi.  Mikið hefur breyst sl 10 ár í hjólabransanum. Hundruðir Íslendinga stunda vélhjólaakstur (enduro og MX).  Íþróttin veltir hundruðum milljóna á ári, ásókn í hálendisferðir hefur aukist, tugir þáttakenda eru í hverri keppni og svo framvegis.

Þegar íþróttin verður svona stór fer að myndast áður óþekkt pólitískt umhverfi í kringum hana og ábyrgð sem getur verið jafnt jákvæð sem neikvæð. Það sem ég á við er að við erum að verða mun sýnilegri í þjóðfélaginu og getur það verið við mis skemmtileg tilefni eins og dæmið úr DV sýnir þar sem mislyndismenn eru á óviðeigandi hátt tengdir við íþróttina okkar.

Ég þekki ekki til hlítar hvernig þessum málum er háttað innan VÍK en ég vil brýna mikilvægi þess fyrir stjórn VIK og félagsmönnum að við eigum okkur formlegan talsmann sem getur brugðist við slíkum uppákomum á viðeigandi hátt.

Það eru til margir framtakssamir menn og konur í mótorhjólasportinu sem geta haldið uppi málsvörn fyrir íþróttina en mér finnst etv að við svona tækifæri þurfi að vera til taks fulltrúi samtakanna sem getur tekið á svona málum í fjölmiðlum á skipulagðan hátt. Ekki þarf mikið til að æsifréttamenn komist í feitt. Hvað með ef einhver slasast í keppni? Hvað með ef krakki handleggsbrýtur sig í keppni? Sannarlega matur í æsifrétt! Hvað ef menn valda gróðurspjöllum? Það liggur í augum uppi að við þurfum að eiga okkur svaramann sem getur á skipulagðan hátt haldið utan um umræður um hluti sem miður fara í félagsskap okkar og kunna að ná inn í fjölmiðla.

Einnig þurfum við að eiga okkur rödd þegar við gerum eitthvað jákvætt, sem er jú langoftast þannig. Við erum orðin það stór og svo mikið í húfi að við þurfum að axla þessa nýju ábyrgð og ber ég því fram þessa litlu tillögu um talsmann VÍK. Það er svo félagsskaparins að fjalla um málið og taka næstu skref.   

4

Erum við útlagar?

Góðan daginn og Gleðilegt ár, ef það telst gleðilegt að vakna, borða Cherios og lesa Morgunblaðið laugardaginn 3. janúar.

Á íþróttasíðum blaðsins er mynd og grein um “53 íþróttamenn heiðraðir af  ÍSÍ” frábært !

Framúrskarandi og góðir íþróttamenn heiðraðir fyrir afrek sín á árinu sem var að líða, Badmington, Blak, Borðtennis, Dans, Fimleikar, Frjálsíþróttir, Golf, Glíma, Handknattleikur, Íþróttir fatlaðra, Júdó, Karate, Keila, Körfuknattleikur, Knattspyrna, Hestaíþróttir, Lyftingar, Siglingar, Róður, Skautaíþróttir, Skíðaíþróttir, Skotíþróttir, Sund, Taekwondo, Tennis, Skylmingar, Hnefaleikar, Hjólreiðar og Skvass.

En halló, akstursíþróttir, nei engan sá ég á listanum enda Vélhjólaíþróttaklúbburinn ekki nema 25 ára !

Hvað þurfum við að gera til að fá viðurkenningu á sportinu okkar ?

Smá upprifjun, VÍK var innan LÍA Landsambands Akstursfélaga þangað til fyrir 4 árum þegar MSÍ Mótorsportsamband Íslands var stofnað í janúar 2000. Markmið MSÍ var að sameina hagsmuni mótorhjóla og vélsleðamanna í keppnisíþróttum samanber skiptingu heimssambandanna FIM (2, 3, 4 hjól og sleðar) og FIA (bílar).

Með tilkomu MSÍ árið 2000 hefur uppgangur “sportsins okkar” verið þvílíkur,

50 – 100 keppendur í hverri keppni í Íslandsmótinu í MX eða Enduro svo ekki sé minnst rúmlega 200 keppenda á Klaustri í maí 2003.

Engu að síður er ÍSÍ að tefja fyrir ingöngu MSÍ sem sérsambands með því að reyna að koma þessum (MSÍ og LÍA) samböndum inn sem einu sérsambandi í ÍSÍ.

Ég spyr þá af hverju er ekki Karate og Taekwondu innnan Júdósambands Íslands, þetta eru jú allt austurlenskar sjálfsvarnaríþróttir, eða Skautaíþróttin með Skíðasambandinu.

Það er með öllu óþolandi að við séum alltaf settir út í horn, keppnisleifi, brautarsvæði, ofl.ofl.

MSÍ og félög innan þess uppfylla nú þegar eða með litlum breytingum skilyrði til inngöngu sem sérsamband í ÍSÍ, að ætla að þröngva okkur með öðrum akstursíþróttum eins og Rally og Torfæru er ekkert annað en kúgun og verið er að halda verulega aftur af  framgöngu “sportsins okkar”.

Hópur góðra manna hefur unnið mikla og góða vinnu til að koma okkur þangað sem við erum komnir, þeir ykkar hinir sem lumið á hugmyndum til að koma okkur enn lengra stígið fram og látið í ykkur heyra.

Ég get engan veginn þolað að vakna 3. janúar 2005, fá mér hollan og staðgóðan morgunverð og sjá enga mótorhjóla / vélsleðamenn á lista þeim sem ÍSÍ kemur til með að heiðra fyrir frammistöðu sína á árinu sem er að hefjast.

Guð gefi ykkur fulla ferð og ………………..

Kveðja,

Karl Gunnlaugsson

Stökkpalla forrit

Til að taka af allan vafa og ágreining um hönnun stökkpalla sendi ég ykkur forrit sem vinur minn, Jakob Már Rúnarsson, bjó til fyrir nokkrum árum. Það sýnir hvernig þetta virkar allt saman. Þið setjið inn þær tölur sem þið viljið hafa, halla í gráðum, lengd á stökki og svo framvegis. Þá getið þið látið líkanið reikna eitt gildi sem vantar með því að merkja í reitinn fyrir aftan t.d. hraðann og teikna mynd af ferlinu (stökkinu).

Forrit

Stökk kveðjur, Gummi Sig