Greinasafn fyrir flokkinn: Aðsendar greinar

Greinar sendar vefnum…lesendabréf

Ónumið land

Kannski að maður sé endanlega farinn yfir um? Ég veit að
þetta kallast varla mótorhjól; 69 kíló, pínulítið kríli, heyrist varla í þessu
og rétt hreyfist úr sporunum. En þetta er staðreynd, það er búið að skipta út
enduro-hjólinu úr skúrnum fyrir GasGas-klifurhjól eða Trials-hjól eins og það er
líka kallað. Það sem var erfiðast við að taka þetta skref er að maður óttast að
verða fyrir vonbrigðum því ég er ekki viss um að þetta veiti neina útrás af
viti. Ætli ég eigi það ekki sameiginlegt með flestum Íslendingum sem hafa notað
torfæruhjólin til að fá löglega útrás fyrir frumhvatirnar. Ég meina, maður er
vanur stórum mótorum, miklum látum og enn meiri hraða en ekkert af þessu
fyrirfinnst í Trials. Hvað er ég þá að spá?


Klifurhjólin eru fislétt eins og sjá má.

Lesa áfram Ónumið land

Um sléttur Kenýa á ónýtri Súkku

Þetta er ekki flókið. Ef manni býðst að fara í tveggja daga safarí á mótorhjóli um óbyggðir Afríku þá grípur maður auðvitað tækifærið, jafnvel þótt mannskepnan tróni ekki lengur ótvírætt á toppi fæðukeðjunnar á þessum slóðum. Hér er pínulítil ferðasaga frá þessari ótrúlega stóru heimsálfu.

Dagur eitt

Vaknaði klukkan sex, Lesa áfram Um sléttur Kenýa á ónýtri Súkku

Ballett á hjólum

Ballett á hjólum

ÍSLENSK mótorhjólamenning, eins dásamleg og hún nú er, hefur til þessa átt álíka mikla samleið með klifurhjólum (trials) og loðinn þungaviktarboxari með lítilli balletdansmey. En e.t.v. er að verða einhverskonar hugarfarsbreyting þar sem menn eru í auknum mæli farnir að horfa á aksturseiginleika í stað hestafla en þetta tvennt á ekki endilega alltaf samleið. Sala á litlum 250cc torfæruhjólum hefur snaraukist undanfarin ár og nú má greina titring á nýjasta dellumæli okkar Íslendinga, en hann mælir klifurhjóladellu.

Ný stórdella í uppsiglingu?
Undanfarið hefur verið mikil umræða um þessi hjól meðal mótorhjólamanna, nokkur slík hjól hafa verið seld, fleiri á leiðinni og spurning hvort ný stórdella sé í uppsiglingu? Þrátt fyrir að rík og löng hefð sé fyrir slíkum mótorhjólum í Evrópu vita í raun sárafáir hérlendis nokkuð um hvað málið snýst. Við fyrstu sýn virðast hjólin mjög lítil og nett og vega á bilinu 65-70 kíló með öllum vökva. Mótorarnir eru flestir hljóðlátir tvígengismótorar, eru fremur eyðslugrannir og skila aflinu frá sér silkimjúkt sem er nauðsynlegt í erfiðum jafnvægisæfingum en einnig fylgir þeim sú skemmtilega aukaverkun að jarðvegsrask frá slíkum hjólum er í algeru lágmarki. Dekkin eru með mun fínna munstri en hefðbundin torfærudekk og er loftþrýstingur í þeim hafður lítill svo dekkin séu mýkri, hafi stærri gripflöt og hreinlega lími sig við jarðveginn. Akstur þessara hjóla snýst fyrst og fremst um jafnvægi. Þeir fáu sem hafa séð alvöru klifurhjólakappa sýna listir sínar eru á einu máli um að þarna sé stórkostleg íþrótt á ferð en vita jafnframt ekkert hvernig á að leika það eftir sem fyrir augu ber (enn sem komið er) þar sem aksturstæknin í þessum geira er allt öðruvísi en á hefðbundnu torfæruhjóli. Lesa áfram Ballett á hjólum

Bradley – hvalreki á fjörur Íslendinga

Bradley – hvalreki á fjörur Íslendinga

Eftir að Bretar hertóku Ísland við lok seinni
heimsstyrjaldarinnar má segja að myndast hafi náið samband milli þjóðanna sem
hefur haldið alla tíð síðan þótt breski herinn sé jú fyrir löngu farinn af
klakanum.

Eftir að Bretar hertóku Ísland við lok seinni
heimsstyrjaldarinnar má segja að myndast hafi náið samband milli þjóðanna sem
hefur haldið alla tíð síðan þótt breski herinn sé jú fyrir löngu farinn af
klakanum. Einn angi þessara tíðu samskipta þjóðanna er sókn breskra ökuþóra til
Íslands sem hefur fært þeim bresku innsýn inn í einstakan heim og náttúru en
fært okkur Íslendingum aukna þekkingu og víðsýni á móti. Nýjasti hvalrekinn í
þessum efnum er hinn eitursnjalli og viðkunnanlegi motocross-ökumaður Ed
Bradley. Við hittum meistarann á ísilögðu vatni og létum hann kvitta í Dagbók
Drullumallarans.


Bradley skemmti sér konunglega á ísnum á Hvaleyrarvatni.

Sæll Ed, hvernig hefur þú það um þessar mundir? Lesa áfram Bradley – hvalreki á fjörur Íslendinga

Á göddum á gaddfreðnu

Eldur á ísnum

Ég er með uppástungu, svona bæði í gamni og
alvöru. Hvernig væri að læknastéttin athugaði þann möguleika að fækka
eitthvað pillunum sem skrifaðar eru út fyrir þá fjölmörgu sem þjást af
skammdegisþunglyndi á veturna og prófa að vísa á eitthvað sem mögulega
nærir bæði líkama og sál? Það er t.a.m. fátt yndislegra á köldum
vetrardögum en að þeysa eftir ísilögðum vötnum á mótorhjóli þar sem
áhyggjur heimsins eru skildar eftir á bakkanum stundarkorn og menn fá
útrás fyrir einfaldar en sterkar hvatir. Leikurinn snýst um að menn
haldi fullri einbeitingu og að nagladekkin haldi gripi á ísnum.


Galdurinn við beygjurnar er að sitja framarlega á hjólinu og
láta framdekkið halda gripi í ísnum og ekki spara bensíngjöfina.

Ísakstur hefur verið stundaður á Íslandi í mörg herrans ár og til er
mikil reynsla og mörg góð húsráð í þessari tómstundaiðju. Haukur
Þorsteinsson er eigandi verslunarinnar Nítró. Hann mætti með
dótakassann á klakann þar sem við tókum saman stuttan skrens á
tækjunum, Kawasaki KX 250, Husaberg 450 og einhverju furðulegu apparati
sem var eins og afkvæmi vélsleða og fjórhjóls en var óstöðvandi í
ófærðinni. Haukur gaf okkur svo nokkur góð ráð varðandi útbúnað í
ísaksturinn en hann veit sínu viti í þeim efnum. Einnig tókst mér að
draga Guðjón Guðmundsson, umsjónarmann Bíla, frá tölvuskjánum og út á
ísinn, svona rétt til að hann fengi nasasjón af sportinu. En snúum
okkur nú að Hauki og heyrum á hvaða hollráðum hann lumar fyrir
ísaksturinn.

Hvað er það sem er svona gaman við ísinn?

„Allt! það má segja að ísaksturinn fylli upp í dauða tímann þegar það
er ekki hægt að hjóla í motocross-brautum eða á fjallvegum. Einnig er
þetta mjög góður félagsskapur. Maður lærir líka gríðarlega mikið á því
að keyra á ísnum.“


Fjórhjólið er ekki beint kappaksturstæki en engu að síður var
mikið fjör og hasarinn mikill. Haukur smeygir sér hér í innri línuna á
Husaberg-hjólinu sem hafði nóg afl á beinu köflunum.

Geta allar stærðir og gerðir hjóla farið í ísakstur?

„Já
það geta allar gerðir hjóla verið á ísnum. Þetta er bara spurning um
réttan búnað. Það eru 50cc skellinöðrur á ísnum og síðan sjáum við
650cc endurohjól og allt þar á milli. Það hafa meira að segja sést
stærri götuhjól á ísnum, þannig að það geta allir komið sér á hann.“

Hvernig er best að útbúa hjólin í ísaksturinn?

„Númer
eitt er að vera á góðum dekkjum, það er að segja negldum dekkjum sem
fást í nokkrum gerðum. Einnig er hægt að kaupa skrúfur sem eru
skrúfaðar utan frá inn í dekkið og sumir hafa farið þá leið að skrúfa
dekkin innan frá með tréskrúfum. Nauðsynlegt er að setja neyðarádrepara
á hjólið sem drepur á vélinni ef ökumaður dettur af hjólinu og kemur
þannig í veg fyrir að hjólið skaði aðra nálæga. Smástillingar á
blöndungi tvígengishjóla geta verið nauðsynlegar vegna kuldans. Vera
vel klæddur, það er ekki gott að vera kaldur ef menn detta, þá er
hættara við tognun. Nú geta menn keypt upphitaðan fatnað, t.d. hjá
okkur í Nítró, s.s. vettlinga, sokka, treyjur og fleira. Einnig er hægt
að kaupa svokallaðar hitamottur sem settar eru undir handföngin til að
halda hita á höndum. Andlitsgrímur fást einnig og henta þær bæði vel í
kuldanum og einnig í sandinn á sumrin.“

{
B&B&B mætti útleggja sem Beltahjól fyrir
Björgunarsveitir og Bændur. Það er næstum ekkert sem stoppar þetta ofurtæki eins
og Haukur sýnir hér í djúpum snjó.

Hvaða öryggisbúnað og hlífðarfatnað þurfa ökumenn annan en gamla góða föðurlandið?

„Eins
og ég nefndi hér áðan er búnaðurinn á hjólin aðallega neyðarádrepari.
Hvað varðar ökumanninn sjálfan er nauðsynlegt að útbúa sig eins og ef
um crosskeppni væri að ræða, það er að segja hjálmur, brynja,
olnbogahlífar, hnéhlífar, crossskór, gleraugu, hanskar, góðar buxur og
jakki eða treyja.“

Hvað mundirðu ráðleggja byrjendum í sportinu varðandi líkamsbeitingu og aksturstækni?

„Það
er mikið atriði að vera hreyfanlegur á hjólinu, jafnframt því er
mikilvægt að vera afslappaður svo maður spennist ekki upp og pumpist
upp í höndunum, en það er þó nokkuð algengt að menn pumpist upp í
höndunum. Sem sagt muna að halda laust í stýri og passa að hanskar og
annar fatnaður þrýsti ekki það mikið á hendurnar að blóðið nái ekki að
renna eðlilega. Varðandi hreyfanleikann er t.d. hægt að benda á að
þegar komið er að beygju er gott að færa sig fram á hjólið til að ná
sem bestu gripi með framdekkinu og vera framarlega nánast alla
beygjuna, en þegar komið er út úr henni færa sig þá aftar á hjólið til
að koma sem mestu gripi á afturdekkið.“

Ádreparar eru nauðsynlegt öryggistæki á ísnum enda á spólandi
ísdekk ýmislegt sameiginlegt með vélsagarblaði. Þótt slys séu afar fátíð og
minniháttar fara menn mjög varlega.

Hvers lags mótorhjólamenn stunda ísakstur og er einhver aukning í þessari íþrótt milli ára?

„Ég
held að það séu allar gerðir manna og kvenna sem stunda þetta sport og
já það er áberandi aukning á milli ára. Nú sjáum við orðið meira af
ungu kynslóðinni koma á ísinn, krakka um og undir tvítugu. Einnig erum
við farin að sjá fleiri stelpur. Til gamans má geta þess að síðastliðið
sumar voru 3-5 stelpur að keppa á motocross-hjólum og það var ákveðið
að halda stelpunámskeið og fenginn til þess erlendur kennari. Öllum til
mjög mikillar undrunar mættu fyrsta kvöldið 19 stelpur, sem segir okkur
ýmislegt um áhugann á sportinu. Þessi fjöldi hefði talist nokkuð góður
í motocrosskeppni fyrir ekki nema 4-5 árum og þá á ég við í flokki
karla og það í heildina, því að á þeim tíma kepptu held ég engar
stelpur á crosshjólum.“

Hvað um þetta klikkaða fjórhjól, eða á ég kannski frekar að kalla þetta beltahjól? Hvað er málið?

„Já það er ekki nema von að þú spyrjir. Við vorum að fá þennan einstaka
beltabúnað sem passar undir flest 4×4 fjórhjól og hann hefur vakið
gríðarlega athygli. Það má segja að þetta sé bylting fyrir
fjórhjólaeigendur með 4x4x fjórhjól. Nú geta þeir notað hjólin sín
allan ársins hring og ekki nóg með það heldur komast þeir líka ótrúlega
mikið. Einnig tel ég það alveg ljóst að fyrir björgunarsveitir sé þetta
án efa eitt öflugasta björgunartæki sem völ er á. Tækið kemst hreinlega
allt, það dregur heil ósköp og það er gríðarlega góð ending á þessum
búnaði.“

Fimm stjörnur en einn stór galli

KTM 525 EXC – fimm stjörnur en einn stór galli

ÞAÐ má í raun klára þessa umfjöllun með
tveimur orðum sem segja allt sem segja þarf og eru þau: Vá maður! En
fyrir hin ykkar sem eruð enn að lesa og viljið vita meira þá hljómar
afgangurinn eftirfarandi. Ég man vel eftir KTM fyrir áratug eða svo.


Hin hefðbundna EXC-útgáfa kostar 969.000 kr. en Six Days-útgáfan kostar 1.169.000 kr.
ÞAÐ má í raun klára þessa umfjöllun með tveimur
orðum sem segja allt sem segja þarf og eru þau: Vá maður! En fyrir hin
ykkar sem eruð enn að lesa og viljið vita meira þá hljómar afgangurinn
eftirfarandi.Ég man vel eftir KTM fyrir áratug eða svo. Hjólin voru
ekki upp á marga fiska, voru bilanagjörn og verksmiðjan rambaði á barmi
gjaldþrots. En þvílíkur viðsnúningur sem hefur átt sér stað í
austurrísku verksmiðjunum á síðustu árum. Ekkert minna en kraftaverk.
KTM hefur tekið torfærubransann með stórsókn, hirt fjölda titla og
slegið ótal sölumet. Ein ástæða velgengninnar er KTM 525 EXC. Við
prófuðum svokallaða Six Days útgáfu af hjólinu sem er keppnisútgáfa en
að grunninum sama hjól og hefðbundið EXC hjól. Forveri þessa hjóls, KTM
520, kom hinsvegar fram um aldamótin síðustu og sló strax í gegn enda
hafði verið lítið um stóra hvalreka á strendur endurómanna um langt
skeið. 525 hjólið hefur í raun sama mótorinn og gamla 520 hjólið en að
öðru leyti er hjólið gerbreytt og hefur allt aðra og betri
aksturseiginleika en forverinn sem var dálítið þunglamalegur, s.s. í
hægu tæknilegu klifri upp brekkur og í gegnum þröngar beygjur. 525
hjólið hefur vissulega ennþá nógu mikið afl til að þeyta manni um
hávegaslóða á óskynsamlegum og andfélagslegum hraða en með breytingum á
grind og fjöðrunarbúnaði hefur hjólið fengið mun léttari og
skemmtilegri aksturseiginleika sem gera það mjög fjölhæft fyrir vikið.
Gangurinn í mótornum er mildur, þægilegt í grjótbrölti en auðvitað er
hjólið meira á heimavelli eftir því sem hraðinn er meiri og ýta
gírarnir 6 enn frekar undir slíkan akstur.


525 rsm-vélin er með þeim stærri á markaðnum.

Sílíkon eða náttúrulegt?

Hjólið
er þægilegt ásetu, virkilega skemmtilega hannað útlitslega séð og allt
virkar þrælvel þegar kemur að stjórntækjum, kúplingu, frambremsu og
bensíngjöf en persónulega kýs ég vírakúplingu fram yfir ofurlétta
glussakúplingu, svo lengi sem sú fyrrnefnda er vel smurð og þokkalega
létt. Mér finnst vírinn bara gefa betri tilfinningu og náttúrulegri.
Þetta er smekksatriði. Ég var nú ekkert sérlega hrifinn af
afturbremsunni og ég átti það til að traðka hana í botn án þess að fá
alla þá svörun sem ég óskaði eftir. Drullan og bleytan hjálpuðu e.t.v.
ekki til hvað það varðar. Hjólið er með rafstarti, að sjálfsögðu. Þú
skellir bara innsoginu á, snýrð tvisvar eða þrisvar upp á
bensíngjöfina, ýtir á takkann og dýrið vaknar til lífsins. Þrátt fyrir
stóra vél er KTM hjólið blessunarlega lágvært og mætir ströngum
útblásturs- og hljóðmengunarkröfum sem aukast ár frá ári. Einnig er
gripurinn með fínum ljósum sem ekki bara virka vel heldur eru fallega
úr garði gerð. Hjólið kemur með hraðamæli sem geymir ýmsar upplýsingar
en mætti þó hafa stærri skjá (eða ökumann með betri sjón). Þegar allt
þetta er lagt saman er útkoman þrælöflugt keppnis- og leikhjól sem
hefur allan nauðsynlegan búnað til að fá götuskráningu (hvít númer).
Hljómar vel ekki satt?

300.000 króna demparar og bullandi aksturseiginleikar

Six
Days útgáfan af KTM 525 EXC kemur með sérstökum White Power
keppnisdempurum sem virkuðu mjög vel, sérstaklega afturendinn (PDS) sem
étur upp hindranir en nær jafnframt að halda góðu jarðsambandi og þ.a.l. miklu gripi. Framendinn virkaði líka ágætlega en mér fannst hjólið lítið eitt laust að framan og fann einnig lítillega fyrir óstöðugleika á mikilli ferð sem mætti líklega komast fyrir meðstýrisdempara. Fyrir ykkur sem eruð að velta fyrir ykkur hvernig
fjöðrunin á venjulegum EXC hjólum virkar í samanburði við þetta þá er
eiginlega ekkert annað en gott eitt um það að segja. Þessi sérstaka
útgáfa af White Power fjöðrun er bara enn betri.

KTM 525 er
mótorhjól með stóru M-i. Það sem stendur upp úr hvað mótorinn varðar er
hversu mikið en notendavænt aflið er. Til samanburðar má nefna að litli
bróðirinn, KTM 450, hefur meiri snerpu og sprengikraft en aðalsmerki
525 hjólsins er tog. Endalaust tog. Yfir höfuð var ég mjög sáttur við
mótorinn sem mér fannst vera þægilegur og áreiðanlegur en mér fannst
reyndar stundum eins og mótorinn hikstaði lítið eitt þegar ég gaf
snöggt inn í háum gír og á fremur lágum snúningi. Ekkert alvarlegt en
spurning hvort mætti hreinsa þetta atriði út af listanum með stillingum
á blöndungi. Uppgefin þyngd hjólsins frá KTM mönnum eru 112 kg án
eldsneytis sem er ekki ósvipað og hjól í 450cc flokknum sem verður að
teljast gott. Kílóin eru vissulega þarna og líklegt að mjög lágvaxnir
og/eða léttir ökumenn eigi í erfiðleikum með hjólið í mjög þröngum
aðstæðum þar sem þeir geta síður notað eigin líkamsþyngd til að vinna
með hjólinu. En þetta eru undantekningartilfelli og hjá flestum er
þetta ekki vandamál. Reyndar er það svo að í heildina hefur þetta hjól
einhverja þá allra bestu og notendavænstu aksturseiginleika sem völ er
á.


Magnús Jóhannsson (í appelsínugulu) er flugvirki og
KTM-eigandi og spretti úr spori með okkur. Hann þakkar fremur lágri
bilanatíðni hjólsins það að hann getur eytt meiri tíma í að gera við
flugvélar en mótorhjólið.

Fimm stjörnur en einn stór galli

90%
af þeim enduróhjólum sem eru á markaðnum eru sambærileg hvað varðar
verð og gæði. Þau eru hinsvegar eins ólík eins og þau eru mörg hvað
aksturseiginleika varðar og það sem menn kalla „besta hjólið“ veltur
oftar en ekki á persónulegum smekk og þörfum hvers og eins. KTM 525 er
ekki fullkomið fremur en önnur hjól. En það sem skiptir máli er að
gallarnir eru allir minniháttar. KTM 525 er í heildina frábært hjól og
líklega eitt allra besta enduróhjól sem ég hef ekið og það verður gaman
að sjá hvernig litli bróðirinn, KTM 450 stendur sig í samanburði við
hjólin frá hinum framleiðendunum á nýju ári. Þetta er stórt og
kraftmikið hjól en hefur samt bullandi góða aksturseiginleika. Fimm
stjörnur takk fyrir. Hjólinu fylgdi þó einn ókostur. Frekar stór. Hann
var sá að ég þurfti að skila gripnum aftur til KTM umboðsins að loknum
reynsluakstrinum en það var mér mjög á móti skapi. Ekki gott. Hvað varð
um réttlætið í heiminum?

ÞK