Greinasafn fyrir flokkinn: Endúró

Ef það er enduro…þá er það hér

Rennblautir feðgar

Vefurinn hefur verið að fá fréttir af því að Karl Gunnlaugsson hafi verið að taka myndir við árbakkann ásamt nokkrum mömmum, meðan á keppninni í Baldursdeild stóð.  Aðspurður sagði hann mæðrunum að ef sonur sinn lendir í einhverjum vandræðum þá verður hann að bjarga sér sjálfur.  Hann væri sko ekki mættur þarna til að hjálpa honum.

Fréttir hafa síðan hermt að stuttu síðar hafi Gunnlaugur Karlsson komið á fleygi ferð og flogið á hausinn ofan í ánni.  Áður en menn vissu af þá flaug myndavélin upp í loft, einhver mamman greip vélina og Karl fórnaði sér beint út í á.  Í öllum æsingnum féll hann víst flatur, á bólakaf.

Vefurinn náði samband við Karl Gunnlaugsson en hann var staddur á öðru hundraðinu á M1 í Bretlandi.  Jú rétt, hann lét víst einhver orð falla um að hann ætlaði ekki að fórna sér.  Jú rétt, hann stökk af stað og hann datt á hnén og varð blautur upp á brjóst.

Vefurinn hafði einnig frétt af því að einhver mamman hafi tekið myndavélina hans og reynt að taka myndir af þessu.  Staðfesti Karl að upptakan hefði tekist að hluta.

Svínhagi 2003

Meiri háttar spenna og frábær skemmtun. Í dag fór fram þriðja og fjórða umferð Íslandsmótsins í Enduro. Hátt í hundrað keppendur og með hverjum og einum voru aðstoðarmenn, vinir og fjölskyldur. Má segja að yfir 300 manns hafi verið mættir.

Sigurvegari dagsins var Einar Sigurðsson á KTM. Viggó Viggósson á TM landaði öðru sæti og Haukur Þorsteinsson á Yamaha því þriðja.

Hlutirnir gengu mjög vel fyrir sig. Keppnishaldið og tímatökumálin gengu eins og í sögu. Ekki er algengt að óhöpp verði á þessum keppnum, enda hafa þær verið haldnar skipulega frá 1996.

Þrír keppendur þurftu hinsvegar á aðstoð lækninsins. Einn fékk verkjatöflu þar sem hann tognaði í öxlinni. Annar úlnliðsbrotnaði og sá þriðji fór úr axlarlið. Ekki reyndist unnt að kippa honum í lið þar sem hann var vel stæltur og hafði enginn nægilegt afl til að kippa öxlinni í lið. Var hann fluttur með sjúkrabíl og situr líklega núna, horfandi á sjónvarpið heima hjá sér, með hálfan líkamann stútfullan af vöðvaslakandi lyfjum.

Búið er að birta úrslitin og uppfærða stöðuna í íslandsmótinu. Vefstjóri er í útilegu eins og flestir áhugasamir akstursíþróttamenn. Hausinn er stútfullur af fréttum en grillið er orðið heitt. Vefurinn mun því ekki birta nánar fréttir fyrr en annaðkvöld eða á mánudaginn.

Jafnt !

Gera má ráð fyrir að fjöldi skráðra keppanda eigi eftir að breytast eitthvað örlítið.  Vefurinn hefur ekki náð sambandi við stjórn VÍK (í nótt) og er ekki ólíklegt að eitthvað sé um breytingar  sem borist hafa beint á email.

Vefurinn veit fyrir víst að á þessari stundu er verið að fara yfir númeraúthlutanir þar sem nokkrir voru ekki með keppnisnúmer, rangt keppnisnúmer og/eða sumir nýjir skráðu sig undir sama númeri.  Úr þessu verður greitt á morgunn.

Það má teljast ólíklegt að keppendum fækki eða fjöldi aukist um fleiri en einn, plús/mínus og er staðan í dag sú að 43 hafa skráð sig í Baldursdeild og 44 í Meistaradeild.

Er þetta ótrúlegt, sérstaklega í ljósi þess að Baldursdeild hefur ætíð verið skugginn af Meistaradeild.  Hvort sem það er kvöldsólin sem lengir skuggann eða von um einhverja viðurkenningu sem fær menn til að skrá sig í Baldursdeildina þá er eitt víst.  Baldursdeildin er orðin að alvöru deild.

ps.  Hver sagði að það mundi rigna í allan dag?

Skipting hjólategunda

Búið er að taka saman upplýsingar um skiptingu milli hjólategunda í næstu enduro keppni.  Upplýsingarnar voru settar fram í súlu- og kökuriti og kemur þar fram að fjórðungur allra hjóla eru KTM hjól.


Svínhagi

Á laugardaginn var brautin lögð og er hún um 15 km löng.  Það voru 13 vaskir sveinar sem komu að lagningu hennar.  Þetta voru Grettir, ´Guðberg, Kalli, Gulli, Ingvar Hafberg, Helgi Valur, Bergmundur og Sigurður frá Hveragerði ásamt syni sínum honum Hirti.  Einnig komu í stutta stund 85cc tríóið sem fluttir voru í Svínhaga af Ómari úr Grindavík ásamt frú sem bauð upp á veitingar.

Það þurfti einnig að rífa girðingu sem var í kringum „pittsvæðið“ og var notaður Raminn hans Guðbergs og Fordinn hans Sigurðar.  Með þessum amerísku tryllitækjum tók þetta ótrúlega stuttan tíma, en band var sett í girðinguna, húkkað á krókinn og ekið af stað og við þetta spíttust upp staurar með miklum látum.  Dregið var í hrúgu þar sem Grettir beið með gröfu og tók draslið upp á vörubíl og fjarlægði síðan.

Brautin er að mestu tilbúin, en það á eftir að setja slaufur á stikurnar og breyta brautinni aðeins vegna hættu sem er í brautinni á einum stað.  Verður hún stytt á einum stað um 1 km, en lengd í staðin á öðrum um svipaða vegalengd.

Á föstudagsmorgun mun ég fara í það að laga restina og setja slaufur á stikurnar.  Ef einhver hefur áhuga er þeim sama velkomið að hjálpa mér og jafnvel fá far austur, en síminn hjá mér er 660-4028.

Veðurspáin er góð og ætti að vera hægt að vera í tjaldi þarna um helgina, en Viggó kom með skúr sem klúbburinn fékk gefins til að nota sem salernisaðstöðu.  Skúrinn verður þarna áfram fyrir en með þessu er komin upp góð aðstaða til að vera við æfingar í Svínhaga um helgar.  Þess ber að geta að það er bannað að hjóla utanvega hvar sem er í landinu og mun keppnisstjórn sýna í máli og myndum hvar má aka í landi Grettirs „hins góða“ í framtíðinni.

Hjörtur Líklegur keppnisstjóri.

40+ flokkur

Keppnisstjóri hafði samband við vefinn og sagði að einhver misskilningur væri meðal manna varðand 40+ flokkinn og Lávarðardeild.  Til að taka af allan vafa þá er hér um tvo flokka að ræða.

Keppni í Lávarðadeild fer fram samhliða Baldursdeild.  Hvert ár gefur keppanda 30sek forgjöf þannig að 45 ára fær 2,5mín í forgjöf á 40 ára keppanda og 55 ára keppandi hefur 7,5 mín í forgjöf.

Keppni í 40+ flokknum fer fram samhliða Meistaradeild.  Einungis þeir sem skrá sig í Meistaradeild og eru 40 ára eða eldri eru sjálfkrafa skráðir í þennan flokk.

Sagði keppnisstjóri að brautin væri næstum tilbúin.  Eftir er að gera smá breytingar af kröfu landeiganda og út frá öryggissjónarmiðum.  Brautin er um 15 km. löng og gerir Hjörtur ráð fyrir að hröðustu menn fari hana á 18-21 mínútu.

Sagðist Hjörtur hafa áhyggjur af miklum hraða en inn á milli eru erfiðar brekkur, hliðarhalli og fleira góðgæti til að draga úr hraðanum.