Jónas Stefánsson sigraði í síðustu umferð í enduroinu sem fram fór á Akureyri í gær laugardag eftir flottan akstur. Kári Jónsson gekk ekki heill til skógar vegna magakveisu og gat aðeins tekið þátt í fyrri umferðinni. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að Kári Jónsson er glæsilegur Íslandsmeistari í Enduro árið 2013 og er því tvöfaldur Íslandsmeistari þetta árið eftir að hafa landað titlinum í motocrossi um síðustu helgi. Til hamingju með það Kári!
Aðrir sigurvegarar dagsins voru Signý Stefánsdóttir sem sigraði kvennaflokkinn á fullu húsi stiga og er því ótvíræður Íslandsmeistari 2o13. Einar Sigurðsson sigraði B-flokkinn en þar varð Haraldur Björnsson efstur að stigum eftir árið. 40+ flokk sigraði Magnús Gas Helgason en Íslandsmeistarinn Ernir Freyr Sigurðsson varð í öðru sæti. Í tvímenning sigruðu Óskar Þór Gunnarsson og Michael B. David en þátttaka í tvímenning var aldrei nægileg til að flokkurinn teldi til Íslandsmeistara. Stigahæstir þar eftir sumarið urðu þó Pétur Smárason og Vignir Oddsson og hefði verið gaman að sjá fleiri taka þátt í þessum flokk í sumar.
Veðrið á Akureyri var eins og best var á kosið á þessum árstíma, logn og blíða. Brautin var frábær að hætti KKA manna sem fjölmenntu til starfa við mótið og stóðu sig með stakri prýði. Keppendur hefðu klárlega mátt vera fleiri eins og oft áður í sumarið en þeir sem mættu skemmtu sér mjög vel. Takk fyrir gott endurosumar.
Ítarleg úrslit og staðan í Íslandsmótinu er hér fyrir neðan