Greinasafn fyrir flokkinn: Félagsstarf

Ef starf er tengt félagi þá er það félagsstarf

Óánægja með keppnisdagatalið

Vefnum hefur borist bréf frá Vestmannaeyjum.

Hvað er í gangi! Vilja menn sleppa eyjakeppninni úr Ísl.mótinu í crossi næsta sumar? Eða hafa menn upp á eitthvað betra að bjóða. Í Eyjum er fullbúin braut sem lögð er í náttúrulegu landslagi með brekkum, hólum og hæðum + tilbúnum pöllum. Brautin er erfið MX-braut(kannski of erfið fyrir suma). Eru menn kannski að setja fyrir sig ferðakostnað fyrir eina ferð með Herjólfi á meðan við förum u.þ.b. 6 keppnisferðir yfir sumarið og látum það ekki hindra okkur í að stunda þetta frábæra sport. Það hljómar undarlega að menn séu tilbúnir að fórna því að keppa á þessari alvöru mx-braut þar sem keppt er með fullu leyfi og stuðningi bæjaryfirvalda, fyrir kannski braut í Reykjavík sem ekki er til en verður vonandi einhverntíman að veruleika.
Hvað finnst mönnum vera boðleg mx-keppnisbraut???
1. Reykjavík (???????????)
2. Selfoss (stuttur góður æfingahringur)
3. Akureyri (flatt svæði með stórum stökkpöllum (supercross))
4. Ólafsvík (mjög góð braut)
5. Eyjar (tilbúin braut frá náttúrunnar hendi)
Þetta eru aðeins mínar hugleiðingar, með von um breitt keppnisdagatal og skemmtilegt motocross tímabil.
Með (o-ring)keðju Sævar „Langston“ B-kongur
PS. í Eyjum er hægt að hjóla 11 1/2 mánuð á ári. Allir velkomnir nema fýlupúkar.

Sameiginleg málefni

Einhverjar umræður hafa átt sér stað í stjórnum sniglanna og enduro – cross manna um sameiginleg málefni.  Á korki sniglanna hefur verið opnað fyrir þessa umræðu að einhverjum hluta.  Sjá „Stefna sniglanna í LÍA … inn á Blöndung“ sniglanna.

Hjóla-paradísin

Ísland er án vafa eitthvert flottasta enduro land í heimi.  Við eigum ógrynni af vegum, vegarslóðum, hestatroðningum og rolluslóðum sem skera landið þvert og endilangt.  Því til viðbótar liggja þessir slóðar um eitt stórbrotnasta land heimsins, út frá jarðfræðilegu- og/eða fegurðarsjónarmiði.  Við enduró-hjólamenn höfum þann lúxus að upplifa tvöfalda hamingju.  Að fá að hjóla og um leið ferðast um Ísland.
Ísland er búið að upplifa einhvern tískutopp undanfarin 3 misseri og virðast engin lát á þessum toppi.  Alltaf verður Ísland, einhvernveginn, vinsælla og vinsælla.  Það telst ekki tiltökumál í dag, 11 janúar, að einhver grein birtist í þekktu tímariti erlendis um Ísland, eða að einhver risa sjónvarpsstöð sýni einhvern þátt um landið.  Þetta var ekki „normið“ fyrir 10 árum.
Það að við hjólamenn, höfum þetta gríðarlega frelsi stýrist að mestu leyti á því að við höfum verið mjög fáir.  Undanfarið hefur hinsvegar orðið gríðarleg fjölgun.  Hver veit nema ferðamenn fara að ferðast á hjólum einnig.  Þetta frelsi okkar til að njóta landsins og hjólamennskunnar getur breyst á örskotsstundu.  Svo virðist sem tiltölulega auðvelt sé að koma því í kring við yfirvöld að setja upp skilti þar sem fram kemur að akstur vélhjóla er bannaður.  Það mun hinsvegar reynast óvinnandi að ná þessu skilti niður aftur.  Landið þolir miklu fleiri hjólamenn og ekkert þarf að breytast svo lengi sem við höfum hugfast að aka ekki utan vega og sýna fyllstu kurteisi gagnvart öðrum vegfarendum.  Það yrði dapurt ef einn eða tveir hjólamenn yrðu þess valdir að einhver ákveðin leið lokast.  Leið sem kannski á annað hundrað hjólamenn hafa ekið ár eftir ár, án vandræða.
Sú hugsun, að þetta er „hálfgerð“ auðn, að enginn sjái til mín eða að ræfils landeigandinn á hvort eð er of margar rollur er í raun algert aukaatriði.  Aðalatriðið er að með þessu atferli er verið að skemma fyrir okkur hjólamönnum.  Nú þegar hafa verið framkvæmd mörg skemmdarverk.  Sem dæmi má nefna innanbæjarakstur.  Fyrir ekki meira en 3 árum var hægt að aka í rólegheitunum, beint út úr bílskúrnum og út úr bænum, framhjá lögreglustöðinni í Hafnarfirði, mæta tveimur lögreglubílum og veifa þeim án neinna afskipta þó svo viðkomandi væri á númerslausu hjóli eða crossara.  Í dag er þetta ekki hægt, þökk sé fíflaskap 1-4 manna innanbæjar á samsvarandi hjólum.  Ár eftir ár  aka tugir hjólamanna um viðtekna slóða án neinna vandræða.  Síðan kemur hneykslisfrétt einn daginn í fjölmiðlum um eitt eða tvö hjólför utan vega og öll þjóðin og þar á meðal yfirvaldið, dæmir alla hjólamenn.
Aðalatriðið er að með slíku framferði völdum við okkur sjálfum og félögum okkar margfallt meiri skaða.
En hvað um það.  Með öllum þeim vor-leysingum sem eiga sér stað í dag þá er svosem allt í lagi að birta smá vor-hugleiðingar fyrir okkur íslensku hjólamennina.  Stolt okkar er hinsvegar landið okkar og það kemur því engum okkar á óvart að BMW hefur sett „exotic ride“ titil á grein um Ísland á vefsíðu sína.  Sjá vefsíðu.  GM.

Hver ætlar að taka við?

Ég vil byrja á því að óska öllum félagsmönnum í VÍK gleðilegs árs og þakka fyrir þau gömlu. Nú þegar það styttist í aðalfund VÍK vil ég velta upp þeirri spurningu. Hverjir ætla að taka við í stjórn klúbbsins? Því eins og fram kom á síðasta félagsfundi þá ætla fjórir af fimm meðlimun stjórnarinnar að hætta. Það er því nokkuð ljóst að það vantar fjóra drífandi einstaklinga til að taka sæti í stjórninni, til þess að fylla upp í þau skörð sem þar myndast. Skúli er sá eini sem ætlar að bjóða sig áfram í sjórn VÍK. Mér hefur verið bent á það, að það sé ekki viturlegt að skipta svona mörgum út í einu, og er ég sammála því. En eins og staðan er í dag þá er enginn af þessum fjórum einstaklingum tilbúinn að halda áfram í stjórninni og er ég þá meðtalinn. Við sem ætlum að hætta komum sjálfsögðu til með að aðstoða væntanlega stjórn í að komast inn í þau mál sem fylga því að halda utan um klúbbinn og rekstur hans. Ég tel að fráfarandi stjórn skili góðu búi og það sé ekki erfitt verk að taka við stórnartaumunum. (Vá! Þetta var eins og hjá Davíð) Ég vil því hvetja menn til þess að íhuga það hvort stjórnarseta í VÍK, samheldnasta mótorsportklúbbi á Íslandi sé ekki eitthvað sem vert sé að skoða. Því ég er farinn að hafa nokkrar áhyggjur af framtíð VÍK miðað við þær dræmu undirtektir sem framboðsmálin hafa fengið. Og ég trúi því ekki að enginn hafi áhuga á þessum skemmtilegu félagsstörfum. Því vissulega eru þetta skemmtileg og gefandi félagsstörf sem gaman er að vinna. Þess vegna skora ég á menn að bjóða sig fram til stjórnarsetu sem fyrst því það styttist óðum í aðalfund.

Virðingafyllst
Magnús Þór Sveinsson
Formaður VÍK

Motocross braut í Hafnarfirði

Barátta VÍH fyrir motocross braut í Hafnarfirði er farin að skila árangri.  Bæjaryfirvöld í Hafnarfirði eru búin að setja inn í aðalskipulag sitt að VÍH fái úthlutaða braut til afnota, 3-4 km langa.  Eru yfirvöld í Hafnarfirði nú að skoða hugsanlega staðsetningu í samráði við önnur akstursíþróttafélög í Hafnarfirði.  Aðalatriðið er að brautin er komin inn á skipulag og mun því verða að raunveruleika.

Supercross í London

Það væri ekki ónýtt að skella sér á supercross í London í mesta drunganum eftir áramót.  En síðasta mótið í breska SX-inu fer fram Laugardaginn 12 janúar í London Arena höllinni.  Það ku víst fljótlega vera hægt að nálgast miða á www.ticetmaster.com einnig má finna símann á www.londonarena.co.uk „twenty five pounds per ticket please“ Kíkið á www.uksuperx.com  BB.