Kynningarfundur fór fram í gær vegna Klausturs 2013 og var hann ágætlega sóttur. Í upphafi fundar fór Geir Gunnar Magnússon næringafræðingur yfir mataræði almennt og sérstaklega fyrir íþróttafólk og var margt áhugavert sem koma þar fram. Síðan var fyrirkomulag keppninnar sem fer fram 25 maí kynnt ásamt flokkum og skráningu. Fjölgað hefur verið verulega í flokkum og er það gert til að reyna að skapa aukna stemmingu á staðnum og einnig fyrir keppninni. Verður t.d. hjóna/paraflokkur (Einar púki og Gunni painter verða koma með staðfest vottorð um sambúð ef þeir ætla að keppa í þessum flokki :)). Einnig á að reyna á að laða fram gamlar tuggur sem leynast inn í skúrum landsmanna og verður sérflokkur fyrir hjól sem eru 15 ára og eldri. Verður það meira í skemmtiformi og „keppir“ sá flokkur á undan aðalkeppninni og er um að gera fyrir aðila sem eiga slík hjól að mæta með þau og sýna á staðnum, en nánar um það síðar.
Skráning í keppnina hefst kl.20:00 að íslenskum staðartíma föstudaginn 1 mars og fer skráningin fram á vef MSÍ, www.msisport.is. Takmarkaður fjöldi sæta er í boði og verður áfram miðað við 400 keppendur í það heila óháð fjölda liða, m.ö.o. einungis 400 keppendur fá að taka þátt. Er það gert að beiðni landeiganda sem telur að svæðið beri ekki fleiri keppendur og virðum við það að sjálfsögðu. Meginreglan við skráningu er sú að FYRSTUR KEMUR, FYRSTUR FÆR en þó með þeirri undantekningu að VÍK áskilur sér rétt til að endurraða á ráslínu í fyrstu tvær til þjár línurnar ef þarf og verður það eingöngu gert af öryggis sjónarmiði. Það er engin verðbólga í gangi hjá VÍK og verður keppnisgjaldið óbreytt frá árinu 2012 og verður AÐEINS kr. 13.000 á hvern keppenda. M.ö.o. ef þú ert einn að þá borgar þú 1 x 13.000 kr., ef það eru tveir í liði að þá er borgað 2 x 13.000 kr. o.s.frv. Fyrir þá sem eru orðnir ryðgaðir að skrá sig í gegnum MSÍ, að þá er hægt að skoða ferlið hér en þarna eru líka leiðbeiningar fyrir nýja aðila sem EKKI hafa notað þetta kerfi áður og þurfa að stofna sig inn í FELIX. ATH! að nóg er að einn liðsfélagi sé með aðgang og getur hann þá skráð hina sem ekki eru með aðgang að FELIX kerfinu en hann getur eingöngu skráð sig og sitt lið.
Við viljum benda væntanlegum þátttakendum á að til þess að skráning verði gild, þarf sá að vera búin að greiða félagsgjaldið í sitt félag/klúbb og verður það kannað eftir skráningu hvort svo sé. Búið er að opna fyrir greiðslu félagsgjalda á vefnum hjá VÍK og nýjung í boði þar fyrir félagsmenn sem kynnt verður sérstaklega í annari tilkynningu/frétt. Að lokum viljum við bara segja, „gangi ykkur vel og sjáumst hress á Klaustri 25 maí“