Merkilegt þetta veður, nú er motocrossbrautin í Bolaöldu frostlaus og í frábæru standi og það um hávetur. Arnar Ingi #616 var þar í gær og brosti allan hringinn, brautin ófrosin, röttar í beygjum og pöllum og aðeins einn pollur. Það er því hugmynd að breyta næturenduroinu tímabundið í næturmotocross í brautinni annað kvöld, miðvikudagskvöld kl. 20. Landsnet lánar okkur eitt mastur með kösturum sem stillt verður upp í brautinni ásamt bílum þar sem því verður komið við. Auk þess mæta menn bara með allan tiltækan ljósabúnað á hjólin og láta vaða í brautina. Það er spáð 5 stiga hita og lítils háttar rigningu þannig að veðrið spillir ekki fyrir. Slóðarnir eru væntanlega talsvert blautir þannig að þetta er það besta sem býðst. Heitt kaffi/kakó og piparkökur í húsinu. Skemmtum okkur í skammdeginu! 🙂