Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir

Þetta er aðalflokkurinn

Árskort og dagpassar komin á Olís Rauðavatni og Litlu Kaffistofuna.

Nú er hægt að kaupa dagpassa og árskort á Bolaöldusvæðið í Olís við Rauðavatn og í Litlu Kaffistofuna. Dagpassinn kostar 2.000 kr. og árskortið kostar 15.000 kr. Ef þið hafið greitt 15.000 kr. en eigið eftir að fá árskort, þá skuluð þið hafa samband við Pétur Smárason, framkvæmdastjóra Bolaöldusvæðisins. Ef þið hafið greitt 4.000 kr. félagsgjald þá eru börnin ykkar komin með kort í barnabrautirnar og þið eruð komin með aðgang að slóðunum.

Opin MX æfing í kvöld, 24.5. á milli 19:00 og 20:30. Smá um Klaustur.

Við viljum minna á opnu motocross-æfinguna í kvöld hjá Ingva í Bolaöldu. Áherslan hefur verið mikil á Klaustur en það er líka hægt að keyra motocross. Að vinna í motocross tækninni skemmir heldur ekki fyrir Klaustri. Það myndast skemmtilegar beygjur í kartöflugarðinum á Klaustri.

Við viljum þá einnig minna á að skráningin í barnakeppnina er opin alveg fram að henni. Guggi tekur við skráningum í tölvupósti fram á föstudag og svo er einnig skráning á staðnum um morguninn. Sjá dagskrána fyrir það á Klaustur ORC.

Skráningu í aðalkeppnina er LOKIÐ. Það er ekki lengur hægt að skrá sig í hana. Listinn er í vinnslu og merkingar einnig. Við birtum listann við fyrsta tækifæri. Ef einhver átti eftir að henda inn upplýsingum um liðsfélaga, þá má sá hinn sami klára það mál. Við minnum svo á skoðun á morgun kl. 18:00 í Ölgerðinni.

Klaustur – er allt að verða klárt?

Rusty-dirt-bike

Eins og við auglýstum í gær, þá ætlum við að skoða öll keppnishjól fyrir Klaustur. Þá fer líklega einhver að velta því fyrir sér hvað það sé sem við erum að horfa eftir. Heilt yfir á hjólið að sjálfsögðu að vera í lagi og á það ekki bara við um Klaustur. Það á við um allan akstur á hjóli hvort sem það er í motocross-braut eða úti á slóðum. Hér er samt það sem við horfum eftir:

  • Plöst eiga að vera heil, óbrotin og fest eins og ætlað var. Þau eiga ekki að geta skaðað notandann eða aðra keppendur.
  • Handföng eiga að vera heil og óbrotin. Kúlurnar eru ekki á endunum eftir áralangar prófanir í vindgöngum. Það vill enginn fá brotið handfang á kaf í lærið á sér.
  • Hjólið á ekki að leka olíu. Það á við um mótor, gírkassa, bremsur og dempara.
  • Bremsur eiga að vera í lagi og virkar bæði að framan og aftan.
  • Mörgum hefur þótt skrýtið að í svona skoðun séum við að horfa á gjarðir og prófa hjólalegur í hjólum, en staðreyndin er sú að mjög margir gleyma að huga að þessum hlutum. Þess vegna skoðum við þessa hluti.
  • Við höfum kannski ekki haft það á orði, en stýrispúði á að vera í lagi. Það er til ein skelfileg íslensk saga tengd torfæruhjólum og stýrispúðaleysi.
  • Við setjum hjólin ekki í gang í skoðun. En við höfum rétt til þess að vísa keppendum úr keppni ef pústkerfi reynist ekki vera í lagi. Hávaðamengun er sportinu ekki til frægðaraukningar og óþolandi fyrir alla í kringum þig. Þannig að ef það er mikill hávaði í nýja karbon-karbít Yoshimura-White Borthers-Vance&Hines pústinu þínu, pakkaðu þá kútinn kúturinn minn.
  • Hafðu hjálminn með. Við skoðum hann líka. Ef hann heitir Bieffe og kjálkavörnin er skrúfuð á hann get ég lofað þér því að hann er orðinn of gamall.

Svo eiga pappírsmál að vera á hreinu. Keppnisviðauki í tryggingum, hjólið skráð, félagsgjöld í félag innan MSÍ greidd og í skoðun skrifarðu undir þátttökuyfirlýsingu.

Eruð þið ekki annars orðin spennt??

Klausturskeppendur athugið – skoðun – liðsfélagar

 

Ölgerð

Skoðun hjóla. Við munum skoða öll hjól sem mæta til keppni á laugardaginn kemur. Við munum skoða í Reykjavík á miðvikudaginn, 25. maí 2016, á milli kl. 18:00 og 21:00 við Ölgerðina. Ölgerðin er stóra vöruhótelið sem þið sjáið við Vesturlandsveginn. Hún er á Grjóthálsi 7-11. Skoðunin mun fara fram við aðalinngang hússins sem er á bak við húsið. Hér að ofan má sjá mynd af þessum inngangi. Hérna við skiltið verður skoðað og svo verða númerin afhent inni þarna beint af augum. Þar inni verða til sýnis nýjustu hjólin frá umboðunum, RedBull verður hrímkalt á kantinum og sýnd verða myndbönd frá fyrri keppnum. Fyrir þau sem eru blessunarlega laus við það að búa á höfuðborgarsvæðinu (þá slær í manni sveitahjartað) þurfa þó ekki að bruna í bæinn ef tími eða tækifæri gefst ekki til. Einnig verður skoðað hjá VÍFA á Akranesi, hjá UMFS á Selfossi, Start á Egilsstöðum og KKA á Akureyri. Snúið ykkur að þeim félögum fyrir staðsetningu á skoðun þar. Ég reikna með að hún verði á svipuðum tíma og hérna hjá okkur í bænum. Hún getur ekki orðið mikið fyrr þar sem límmiðarnir verða ekki tilbúnir fyrr en samdægurs. Við eigum eftir að birta aðra grein og fara yfir hvað þarf að vera á hreinu fyrir skoðun, en mjög mikilvægt atriði er það að félagsgjöld séu greidd. Við munum staðfesta það í skoðun.

Hér kemur svo annað mikilvægt atriði sem allir þurfa að lesa. Tæknin var að stríða okkur og við sjáum ekki liðsfélaga í neinum liðum. Við sjáum bara hver skráir liðið og í hvaða flokk. Þannig að EF þú ert EKKI í járnkarlinum, EF þú hefur EKKI tilkynnt neinar breytingar á liðinu þínu og ert EKKI í liði með einhverjum úr stjórn VÍK þá ÞARFT ÞÚ að senda tölvupóst á vik@motocross.is sem allra allra fyrst. Hafðu subject: Lið á Klaustri

Settu svo póstinn svona upp:

Flokkur: Þrímenningur (sem dæmi)

Aðili sem skráir lið: Línus Gauti Hjálmsson 170644-2349

Liðsfélagi 1: Mist Eik Maack 170644-3459

Liðsfélagi 2: Ævar Andi Stormur 170644-4569

Ákveðin systir úr ákveðinni fjölskyldu reyndi að „brjóta internetið“ með myndum af skuðinu á sér. Reynið núna að brjóta inboxið mitt með liðspóstum.

Svo hvet ég þá sem eiga eftir að skrá sig til þess að gera það, en þeir gera það áfram inni á msisport.is.

Einnig óskum við enn eftir fólki í race police.

Góðar stundir.

Sigurjón Snær Jónsson

Race police / keppnislögregla óskast á Klaustur

Fallega fólk. Nú er rétt tæplega vika í veisluna. Fyrir ykkur sem langar að koma austur til þess að vera með í gleðinni og viðra fákana, en viljið ekki vera alveg bundin við hringakstur allan tímann, er kjörið tækifæri að koma í race police. Þau ykkar sem hafa áhuga á slíku eru beðin um að hafa samband okkur í gegnum vik@motocross.is eða með því að tala við einhvern í stjórninni.

Verkefnið er í grófum dráttum það að keyra meðfram brautinni og um svæðið yfir keppnistímann og hafa vökul augu. Það þarf að fylgjast með því að stikur og brautarmerkingar haldi sér á sínum stöðum og að keppendur virði merkingarnar. Þannig að stundum þarf að stoppa og reisa við stikur. Einnig eruð þið „vopnuð“ talstöð. Ef þið sjáið keppanda stytta sér leið þannig að „einbeittur brotavilji“ sé greinilega til staðar, þá tilkynnið þið keppnisnúmer viðkomandi í talstöðina sem skilar sér þannig að viðkomandi keppandi fær víti. Einnig þarf að fylgjast með heilsu keppenda og þróun brautarinnar. Ef einhver kafli er að slitna þannig að hann sé að verða ófær, þarf að tilkynna keppnisstjórn það.

Við sköffum svo eldsneyti, bæði fyrir fák og knapa. Núna í ár minnum við svo á eina viðbót. Þegar þú ert búin/n að verja laugardeginum í að horfa á alla þessa keppendur keyra þessa skemmtilegu braut allan daginn, þá geturðu fengið að skella þér nokkra hringi á sunnudeginum. Því brautin verður opin í kringum hádegið á sunnudeginum einnig þetta árið.

Komd’og vertu með.