Greinasafn fyrir flokkinn: Keppnir

Hér er allt um keppnir, keppnishald og úrslit

1. umferð í Ís-Cross fer fram á Akureyri 11. febrúar

Skráning í 1. umferð Íslandsmótsins í Ís-Cross sem far átti fram í Reykjavík 28. janúar mun gilda fyrir keppnina sem sem fram fer á Akureyri laugardaginn 11. febrúar. Þeir keppendur sem skráðu sig í 1. umferð athugið að sú skráning mun standa og verður opnað fyrir þá skráningu aftur til miðvikudagsins 8. febrúar til kl: 21:00

Þeir keppendur sem þegar hafa skráð sig en geta ekki mætt á Akureyri er bent á að senda póst á kg@ktm.is áður en skráningarfrestur rennur út og mun þá keppnisgjaldið verða fært á aðra keppni. Langtímaveðurspáin lítur vel út og allt útlit fyrir góða keppni á Akureyri. Ekki hefur verið ákveðið með aukakeppni í Ís-Cross en gera má ráð fyrir að hún verði sett á í kringum 25. febrúar ef aðstæður leyfa.

Stórskemmtileg Snjó Cross Country keppni að baki

Í dag fór fram á Bolaöldusvæðinu fyrsta snjócrosscountrykeppnin af þremur sem haldnar verða í vetur. Hugmyndin með þessum keppnum var að bjóða upp á einfalt og skemmtilegt keppnisform fyrir sleðamenn þar sem aðalmálið væri skemmtileg keppni í einfaldri braut þar sem allir gætu keppt á jafnréttisgrundvelli. Það er óhætt að segja að þessi fyrsta keppni hafi tekist frábærlega. 24 keppendur voru skráðir til keppni á alls konar sleðum, ungum og öldnum auk þess sem keppendur voru á aldrinum 15 og upp undir fimmtugt. Tvær konur tóku þátt og stóðu sig frábærlega.

Brautin byrjaði fyrir ofan motokrossbrautina og lág inn í Jósepsdal og lykkjaðist upp og niður um brekkurnar í dalnum. Talsvert hart færi var í brautinni í dag og höfðu menn nokkrar áhyggjur af kælingu á beltunum fyrir keppni. Það virtist þó ekki koma að sök þar sem brautin tættist fljótt upp sem dugði til að kæla beltin.

Lesa áfram Stórskemmtileg Snjó Cross Country keppni að baki

Fyrstu umferðinni í íscrossi frestað vegna óviðráðanlegra aðstæðna

Af óviðráðanlegum orsökum hefur fyrstu umferðinni í íscrossi verið frestað um óákveðin tíma.  Aðstæður eru mjög erfiðar til keppnishald og er með öllu ófært upp að Hafravatni og óvíst hvort þessar þrjár leiðir verði yfirhöfuð mokaðar fyrir helgi.  Þar fyrir utan er ekki forsvaranlegt að láta fólk ferðast landshluta á milli við þessar aðstæður á meðan færðin er eins og hún er.  MSÍ mun í samráði við klúbbana finna nýja dagsetningu við fyrsta hentugleika og mun sú skráning sem nú hefur átt sér stað gilda áfram.  Þeir sem hafa athugasemdir við það er bent á að hafa samband við MSÍ.  Vænta má upplýsinga um nýjan keppnisdag og hugsanlega nýjan keppnisstað fljótlega upp úr helgi.  Verður upplýsingum um framhaldið komið í loftið um leið og það er ljóst hvert framhaldið verður, þ.e. nýr keppnisdagur og hugsanlega nýr keppnisstaður.


Skráning hafin í íscrosskeppnina sem fer fram á laugardaginn á vef MSÍ

MSÍ hefur opnað fyrir skráningu í fyrsta íscrossmótið til Íslandsmeista sem fer fram laugardaginn 28 janúar.  Árétta skal til keppenda að hjól þurfa að vera með ádrepara í lagi og öll hjól þurfa að vera tryggð.  Góður hópur manna var að hjóla á ísnum á Leirtjörn um helgina og er það vonandi til marks um góða mætingu um helgina þar sem keppnin fer fram á suðvesturhorninu.  Nú þegar hafa systkinin Signý og Jonni skráð sig til leiks.  Eins og staðan er í dag að þá mun keppnin að öllum líkindum fara fram á austanverðu Hafravatni en miðað við lýsingar formanns MSÍ að þá var ísinn þar í góðu standi og gafst borvél formannsins upp þegar hún var komin í rúma 15 cm og enn bólaði ekkert á vatni.  Ef einhver á tönn sem hann/hún er tilbúin að lána okkur framan á fjórhjól til að ýta braut, að þá væri það vel þegið.  Hægt er að hafa samband við Kalla í netfanginu kg@ktm.is eða Sverrir í netfanginu sverrir@motosport.is.

Fyrsta umferðin í íscrossi til Íslandsmeistara verður laugardaginn 28 janúar

Nú styttist óðum í það að keppnis tímabil MSÍ hefjist að fullu og er fyrsta keppni ársins fyrirhuguð laugardaginn 28 janúar og þar með verður tímabilið formlega hafið.  Skv. dagskrá MSÍ að þá á að halda þetta mót á suðvesturhorninu og lítur út fyrir að mótið muni fara fram á Hafravatni sem samvinnu verkefni MotoMos og VÍK, svo framarlega sem öll tilskilin leyfi fáist til keppnishalds.  Veðurhorfur næstu daga er góð fyrir áhugamenn um íscross og er spáð langvarandi frosti til 27 janúar.  VÍK, MotoMos og MSÍ vonar að sem flestir skrái sig til keppni og sýni þar með í verki þann mikla áhuga sem kviknað í byrjun vetrar þegar vötnin lögðu fyrst og hópur fólks lagði leið sína á ísinn til að hjóla sér til skemmtunar.  Opnað verður fyrir skráningu á föstudaginn á vef MSÍ en það þarf vart að taka fram að öll hjól þurfa að vera með tilheyrandi ádrepara og vera tryggð til að geta tekið þátt í keppnum á vegum félaga í MSÍ.  Nánari upplýsingar um dagskrá verður birt síðar þegar nær dregur keppni en allar líkur eru til þess að keppt verði með sama fyrirkomulagi og í fyrra sem reyndist ágætlega.  Aðstæður á Hafravatni eru ágætar og mun bara fara batnandi á komandi dögum með auknu frosti.  En gert er ráð fyrir allt að -9 stiga frosti á fimmtudaginn í næstu viku.

Bikarmóti MotoMos í íscrossi aflýst vegna dræmrar þátttöku

Vegna ónógrar þátttöku og dræmra undirtekta að þá hefur MotoMos ákveðið að hætta við áður auglýst bikarmót í íscrossi á Hafravatni laugardaginn 7 janúar.  Rétt um tíu keppendur hafa skráð sig til leiks og er ekki stætt á því fyrir klúbbinn að halda keppni gangandi með þeim fjölda.  MotoMos þakkar þeim sem skráðu sig fyrir sýndan áhuga og mun endurgreiða að fullu keppnisgjaldið til þeirra sem skráðu sig.  Senda þarf upplýsingar um reikningsnúmer og kennitölu á motomos@internet.istil þess að hægt verið að ganga frá endurgreiðslu til keppenda.  MotoMos vonar að hjólamenn taki svo betur við sér þegar næsta fyrirhugaða mót verður auglýst og óskar hjólamönnum góðrar hvíldar í vetur og vonar að með hækkandi sól verði menn tilkippilegri.