Greinasafn fyrir flokkinn: Keppnir

Hér er allt um keppnir, keppnishald og úrslit

Stóra stundin nálgast

Í kvöld fer fram stærsta internetkeppni ársins! Skráningin á Klaustur hefst í kvöld klukkan 22 á vef MSÍ. Mikið er í húfi því fyrr sem þú skráir þig því framar ertu á ráslínu!

Talsverð hefð er fyrir því að menn séu full ákafir á startlínunni svona snemma á vorin, gleymi innsoginu (lykilorðinu sínu), týni hjálminum (kreditkortinu) og að hjólið verði bensínlaust (tölvan verði batteríslaus). Menn þurfa að undirbúa sig andlega gegn allskonar mótlæti t.d. eru alltaf líkur á krassi í fyrstu beygju (þ.e. að serverinn hrynji). Menn þurfa þá bara að anda djúpt og bíða aðeins. Lesið leiðbeiningarnar yfir aftur og byrjið uppá nýtt.

Gangi ykkur vel!

p.s. Bara til að hafa það á hreinu þá er keppnisgjaldið 10.000 krónur á mann.

Keppnisreglur fyrir Klaustur

MSÍ og VÍK hafa gefið út keppnisreglur fyrir TransAtlantic Off-Road Challenge (Klaustur). Fljótt á litið eru ekki miklar breytingar en vissir hlutir eru útskýrðir nánar en áður. Stærsta breytingin er án efa að „Vítið“ er orðið 10 mínútur og þriðja vítið merkir vísun úr keppni. Með þessu er gefið til kynna að hart verður tekið á svindli.

Algjör skyldulesning fyrir alla keppendur.

Klaustur reglur

Tékklisti fyrir Klaustur

Svona létt yfirferð yfir helstu hluti sem þurfa að vera klárir á fimmtudaginn.

  1. Skrá sig í klúbb/Borga félagsgjaldið. VÍK eða einhvern annan klúbb
  2. Skrá sig á msisport.is kerfið. Nýskráningar fara fram á www.felix.is. Það tekur allt að einn dag að verða virkt þannig að það er best að gera þetta NÚNA
  3. Búa til lið! Tveggja manna? Þriggja manna? Eða bara að taka sóló?
  4. Tékka hvort kreditkortið sé í gildi og eitthvað sé eftir af heimildinni.
  5. Taka frá fimmtudagskvöldið klukkan 22! Þá byrjar skráningin á www.msisport.is

Svo hafið þið 12 vikur til að kaupa hjól og hjálm, merkja gallann, koma ykkur í form, æfa sig að keyra í sandi, panta gistingu og smyrja samlokur.

Skráning í Klaustur hefst 10.mars

Startið á Klaustri í fyrra

Klausturskeppnin, Transatlantic Offroad Challenge 2011 verður haldin 28. maí í 10. sinn

Ein fjölmennasta íþróttakeppni og langstærsta akstursíþróttakeppni sem haldin hefur verið hérlendis, Klausturskeppnin svokallaða verður haldin á Kirkjubæjarklaustri um 28. maí nk. Skráning í keppnina hefst fimmtudagskvöldið 10. mars kl. 22. Síðastliðið ár skráðu yfir 400 manns sig til keppni á innan við sólarhring og því vissara að vera viðbúinn þegar skráning hefst þar sem keppendafjöldi í ár takmarkast við 400 manns.

Vélhjólaíþróttaklúbburinn og MSÍ, Mótorhjóla- og snjósleðasamband Íslands standa að keppninni ásamt landeigendum á Ásgarði við Kirkjubæjarklaustur. Keppnin á síðasta ári laðaði að sér um 460 keppendur. Þá reyndist brautin mörgum keppendum og hjólum gríðarlega erfið en stór mýrarfláki reyndist ófær er leið á keppnina sem varð til þess að brautinni var breytt þegar leið á keppnina. Undanfarið  hefur gríðarleg vinna verið lögð í að gera keppnissvæðið betur úr garði, slóða hefur verið ýtt upp í gegnum mýrina alræmdu auk þess sem brautin hefur verið lengd.

Lesa áfram Skráning í Klaustur hefst 10.mars

Sumarið (og Klaustur) á næsta leiti

Það er komið að því að greiða félagsgjaldið og styrkja félagið ykkar. Sumarið er rétt handan við hornið og félagið þarf þinn stuðning. Skráning í Klausturskeppnina hefst 10. mars og þá verða allir keppendur að hafa greitt félagsgjald í sitt félag.

Vorverkin í Bolaöldu og Álfsnesi hefjast von bráðar og það er margt sem okkur vantar til að geta staðið okkur í sumar. Félagið vantar m.a. dráttarvél og margt fleira sem nauðsynlegt er að útvega sem allra fyrst. Auk þess kostar það einfaldlega stórfé að byggja upp og reka aksturssvæðin og því þurfa sem flestir að leggja sitt af mörkum.

Félagið heldur úti tveimur svæðum og hjá því er starfsmaður í vinnu auk sumarstarfsmanns sem er kostnaðarsamt. Fjöldi manns vinnur líka sjálfboðastarf á vegum félagsins við að halda keppnir, byggja upp svæðið og tryggja rétt okkar á slóðum og vegum landsins.

Lesa áfram Sumarið (og Klaustur) á næsta leiti