Jói Kef, Gylfi og félagar stóðu fyrir frábærri endurokrosskeppni í Sólbrekku í gær. Tæplega 30 manns skráðu sig til keppni og þeir hefðu alveg mátt vera fleiri. Veðrið klikkaði ekki, brautin var stórskemmtileg – motokross, þúfur, grjót, brölt, fljúgandi dekk, vörubretti, steypuklumpar og alles. Snilldarbraut sem sýndi að það er vel hægt að keppa í enduro í Sólbrekku.
Daði Skaði rúllaði upp einmenningskeppninni og heimadrengurinn Jói Kef ásamt Bjarka #670 unnu tvímenninginn eftir hörkukeppni við Jonna og Stebba, baðvörð. Bestu þakkir fyrir flotta keppni!
Kári Jónsson varð í gær Íslandsmeistari í ECC-1 flokki í Enduro-CrossCountry eftir sigur í öllum 6 umferðum ársins. Eyþór Reynisson varð í öðru sæti í keppninni í Skagafirðinum í gær og tryggði sér þar með sigur í ECC-2 flokki. Gunnar Sölvason og Atli Már Guðnason unnu tvímenninginn, Guðbjartur Magnússon B-flokkinn, Sigurður Hjartar Magnússon B40+ flokkinn og Signý Stefánsdóttir vann kvennaflokkinn.
Íslandsmeistarar árið 2011 í Endúró eftir flokkum:
ECC-1 : Kári Jónsson
ECC-2 : Eyþór Reynisson
Tvímenningur: Gunnar Sölvason og Atli Már Guðnason
Síðustu umferðirnar í Íslandsmótinu í Enduro-Cross Country fara fram á morgun í Skagafirðinum, nánar tiltekið á Skíðavæðinu í Tindastóli. Keppni hefst klukkan 11 og stendur til klukkan 16. Hvetjum við Skagfirðinga og nærsveitunga að fjölmenna á svæðið og fylgjast með.
Íslendingar enduðu í 16. og næstsíðasta sætinu í International Six Days enduro (ISDE) keppninni sem lauk um helgina. Íslendingarnir stóðu sig þó mjög vel í þessari gríðarlega erfiðu keppni sem er einhver mesta þolraun sem fyrirfinnst, að ljúka keppninni er stórvirki útaf fyrir sig. Keppnin var haldin í Finnlandi og fóru heimamenn með sigur af hólmi.
Íslenska liðið varð fyrir því óláni að missa mann strax út á öðrum degi, næsta mann á þriðja degi og þriðja manninn á fjórða degi. Með aðeins þrjá ökumenn eftir í sex manna liði er enginn séns að vinna sig upp af botninum. Íslandsmeistarinn, Kári Jónsson, sem datt út á þriðja degi var búinn að sýna fantaakstur og skaut heimsfrægum kempum afturfyrir sig í nokkrum „Special test“ hlutum keppninnar er þar er keppt í stuttan tíma þar sem hvert sekúndubrot er dýrt.
Næsta keppni fer fram að ári í Þýskalandi og 100 ára afmælismótið fer fram á eynni Sardínu á Ítalíu árið 2013.
Hér kemur síðasti pistillinn frá liðinu en safn þeirra má annars sjá hér:
Þvílíkur áfangi, síðasti keppnisdagurinn var runninn upp og það leyndi sér ekki ánægjan á mannskapnum. Það voru þó þrír keppendur eftir í landsliðinu sem stefndu á að klára sína fyrstu Six Days keppni þennan dag !